Vilja að ESB verði sambandsríki

Norden.org

Fleiri íbúar ríkja Evrópusambandsins eru hlynntir því að sambandið þróist yfir í að verða að sambandsríki en þeir sem eru því andvígir samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem unnin var fyrir það og birt nýverið. Þannig eru 45% sammála því og þar af 34% frekar sammála og 11% mjög sammála. Rúmur þriðjungur, eða 35%, er því hins vegar andvígur og þar af 22% frekar andvíg og 13 mjög andvíg.

Ennfremur eru samkvæmt könnuninni 63% hlynnt því að Evrópusambandið komi sér upp einni utanríkisstefnu en 27% eru því andvíg. 73% eru að sama skapi hlynnt því að sambandið fái sameiginlega öryggis- og varnarstefnu en 19% á móti því. Meirihluti er einnig jákvæður í garð evrunnar eða 52% en 41% eru henni andvíg.

Hvað mest andstaða er við evruna í þeim ríkjum Evrópusambandsins sem ekki hafa tekið hana upp eins og í Bretlandi, Svíþjóð, Tékklandi og Danmörku þar sem andstaðan er á bilinu 65-74%. Mestur stuðningur er hins vegar við evruna í Slóvakíu, Slóveníu og Lúxemborg eða 78-79%. Meirihluti Íslendinga er einnig jákvæður í gerð evrunnar eða 54% á móti 41%.

Þá er meirihluti íbúa Evrópusambandsins á móti frekari stækkun sambandsins ef horft er til meðaltalsins. Rúmur helmingur, eða 52%, eru á móti fjölgun ríkja Evrópusambandsins og 37% því hlynnt. 48% Íslendinga eru hlynnt frekari stækkun sambandsins á móti 40% sem eru því andvíg.

Um er að ræða svokallaða Eurobarometer-skoðanakönnun ESB sem gerð er tvisvar sinnum á ári. Sá hluti sem fjallar um Ísland er unninn fyrir sambandið af Capacent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert