„Sinnuleysi stjórnvalda á Íslandi til margra ára um launakjör í framhaldsskólum og margendurtekinn og grófur niðurskurður á fjármunum til framhaldsskólastigsins er alvarlegt samfélagsmein og ekki einkamál kennarastéttarinnar.“
Þetta segir í ályktun sem samþykkt var á fundi trúnaðarmanna og formanna kennarafélaga í framhaldsskólum landsins í dag.
„Kennurum og öðru félagsfólki KÍ í framhaldsskólum er annt um nemendur og hafa metnað fyrir hönd þeirra, skólanna sinna og menntunar í landinu. Einmitt þess vegna er okkur nóg boðið og segjum – hingað og ekki lengra.“
Í ályktuninni er þess krafist að stjórnvöld „sýni kennarastarfinu þá virðingu að staðið sé við margra ára markmið um sambærileg kjör félagsmanna KÍ í framhaldsskólum og annarra sérfræðinga í þjónustu ríkisins. “
„Við krefjumst þess að stjórnvöld feli fulltrúum sínum strax að bera fram raunhæfar tillögur við samningaborðið um að leiðrétta launakjör í framhaldsskólum og að tryggja eðlilega launaþróun til frambúðar. Þannig og aðeins þannig getur skapast umræðugrundvöllur um framhaldsskóla framtíðarinnar við kennarastéttina,“ segir í ályktuninni.