Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóm Reykjavíkur sem dæmdi Icelandair í júní 2013 til að greiða flugstjóra bætur vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi, sem rekja mátti til óviðeigandi hegðunar. Héraðsdómur dæmdi flugfélagið til að greiða manninum 500.000 í bætur en Hæstiréttur hækkaði þær í 800.000.
Flugstjórinn höfðaði mál gegn Icelandair og krafðist þess meðal annars að viðurkennd yrði að félagið væri skaðabótaskylt gagnvart honum vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi aðila.
Ástæða uppsagnarinnar var atvik er flugstjórinn var á heimleið með farþegaflugvél Icelandair eftir að hafa lokið verkefni á vegum félagsins í Danmörku í ágúst 2010. Flugfélagið taldi hegðun mannsins hafa verið ósamrýmanlega stöðu hans sem flugstjóra hjá Icelandair.
Því var meðal annars haldið fram að hann hefði verið drukkinn og gerst sekur um kynferðislega áreitni gagnvart flugfreyju, ógnað starfsmönnum og sýnt samstarfsaðilum dónaskap og virðingarleysi.
Í dómi Hæstaréttar segir, að ekki hafi verið talið sannað að flugstjórinn hefði neytt áfengis í óhófi þannig að það hefði farið í bága við reglur Icelandair. Fram kemur, að aðilar málsins séu sammála um að maðurinn hafi drukkið tvö glös af bjór á Kastrupflugvelli áður en hann hélt þaðan hingað til lands.
Þótt ljóst væri að hegðun hans hefði verið með þeim hætti að ekki sæmdi stöðu hans var hegðunin ekki talin hafa verið þess eðlis að réttlætt gæti fyrirvaralausa uppsögn úr starfi. Þá var Icelandair ekki talið hafa áður veitt manninum áminningu vegna óviðeigandi hegðunar en telja yrði slíkt forsendu þess að flugfélaginu væri heimilt að rifta ráðningarsamningi við manninn. Því var fallist á viðurkenningarkröfu mannsins
Loks var Icelandair talið hafa gengið lengra í ávirðingum gagnvart manninum en efni stóðu til í bréfi.
Var flugfélagið því dæmt til að greiða manninum 800.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta.