Alma Oddgeirsdóttir, aðstoðarskólameistari Menntaskólans á Akureyri, hefur sent stjórn MORFÍs, mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna formlega kvörtun vegna framkomu liðs Menntaskólans á Ísafirði gagnvart Eyrúnu Björgu Guðmundsdóttur, formanni málfundarfélagsins Hugins, en hún er í liði MA í MORFÍs keppninni.
Greint er ýtarlega frá málinu á vef Bæjarins besta.
Í lögum MORFÍs segir meðal annars að hlutverk stjórnar sé að sjá til þess að keppnin fari fram með tilhlýðilegum hætti. Að mati Ölmu var raunin ekki sú í keppni MA og MÍ. Í bréfinu er atburðarásin rakin, allt frá mánudeginum 3. febrúar þegar þær Eyrún Björg Guðmundsdóttir og Sólveig Rán Stefánsdóttir, sem einnig er í MORFÍsliði MA, komu að máli við Ölmu vegna erfiðra samskipta Eyrúnar Bjargar við liðsmenn MORFÍsliðs MÍ en það kom í hennar hlut að vera í samskiptum við þá.
„Að mati Eyrúnar Bjargar og annarra sem urðu vitni að samskiptunum einkenndust þau af kynferðislegum undirtón og kvenfyrirlitningu í garð Eyrúnar Bjargar og var hún iðulega ávörpuð „elskan, ástin, gæskan, vinan“. Annað dæmi um kvenfyrirlitningu og beinlínis kynferðislega áreitni voru samskipti sem fóru fram á Facebook og Eyrún Björg gaf mér heimild til að vitna til. Liðsmenn MÍ notuðust við tilbúinn aðgang að Facebook,“ segir m.a. í bréfinu.
Sem dæmi um umrædd samskipti Eyrúnar Bjargar og liðsmanna MÍ á Facebook þá spyr hún: „Jæja, hver er staðan á ykkur?“ Þeir svara „grjóthörð og beint upp í loft, nei djók ;)“ Þegar rætt var um að draga um umræðuefni var svar liðsmanna MÍ: „Ég væri samt alveg til í drátt ;)"
Þá fékk Eyrún Björg einnig boð um að „líka“ við síðuna „sex positions“ á Facebook, og tvær myndir af liðsstjóra MÍ, að því er virtist ekki í neinum fötum, voru settar inn, annars vegar á vegg Eyrúnar Bjargar á Facebook og í Facebookhópi liðanna.
Alma taldi ástæðu til að gera athugasemd við þessi samskipti og hafði samband við aðstoðarskólameistara MÍ, Hildi Halldórsdóttur, vegna málsins. Hildur tók strax á málinu og í kjölfarið hafði þjálfari liðs MÍ samband við Eyrúnu Björgu og baðst afsökunar á framkomu sinna manna. Eyrún Björg tók afsökunarbeiðnina til greina en bar þó kvíðboga fyrir keppninni. „Mér fannst ég finna fyrir því alla vikuna að ég væri „bara stelpa“. Þegar þeir töluðu við mig, hvort sem það var í síma eða í tölvu, notuðu þeir alltaf orð sem minntu mig á að ég væri jú „bara stelpa“.
„Tróð mér inn í hana og dó þar“
Samskiptin breyttust á betri veg eftir aðkomu Hildar aðstoðarskólameistara að málinu og stóðu liðsmenn MA og skólastjórnendur í þeirri trú að ekki yrði framhald á þeirri áreitni sem Eyrún Björg varð fyrir. „Annað kom þó á daginn í keppninni þar sem liðsmenn tóku aftur upp þráðinn með liðsstjórann fremstan í flokki sem vitnaði óspart til ferðar sinnar á hátíðina Eistnaflug sem vill svo til að haldin er í heimabæ Eyrúnar Bjargar, á Neskaupsstað.“ Talin eru upp nokkur dæmi í bréfinu um ummæli sem liðsmenn Morfís liðs MÍ létu falla:
Liðsstjóri MÍ: „Ég kláraði hana kannski ekki, en ég eistnaflugaði hana allavega“. „Þar sem ég tróð mér inn í hana og dó þar.“
Eftirfarandi er upplifun Eyrúnar Bjargar af keppninni: „Mér fannst ég mjög svívirt og verst var hvað krökkunum í MÍ fannst þetta ógeðslega fyndið. Mér var bókstaflega óglatt þegar liðsstjórinn lýsti því hvernig hann átti að hafa farið með mig á Eistnaflugi, en aðra eins lýsingu hef ég aldrei heyrt, þess ber að geta að ég hef aldrei hitt þennan dreng áður. Það hefur enginn nokkurn tímann talað svona ógeðslega um mig og það má enginn gera það.“
Sjá ýtarlega frétt BB um málið hér.