Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Stefáns Loga Sívarssonar sem dæmdur var til 6 ára fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.
„Sex ár er auðvitað þungur dómur og það var gerð krafa um sýknu,“ sagði Vilhjálmur í samtali við mbl.is eftir að dómurinn var kveðinn upp, aðspurður hvort hann væri sáttur við þessa niðurstöðu.
„Nú á ég einfaldlega eftir að fara yfir forsendur dómsins með mínum umbjóðanda og skoða hvern og einn ákærulið fyrir sig og hvaða rök héraðsdómur færir fyrir sakfellingunni. Í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um það hvort dóminum verður áfrýjað til Hæstaréttar eða ekki.“
„Ég hef farið yfir ákveðinn hluta dómsins. Það er sýknað af ákveðnum hlutum innan tiltekinna ákæruliða og ákæru vísað frá varðandi húsbrot. Það þarf að gefa sér tóm til að fara yfir þessa niðurstöðu.“
Stefán Logi og Stefán Blackburn hlutu báðir sex ára fangelsisdóm fyrir líkamsárásir og frelsissviptingu. Stefán Blackburn var sviptur ökuréttindum ævilangt. Davíð Freyr Magnússon var dæmdur í þriggja og hálfs árs í fangelsi og þeir Hinrik Geir Helgason og Gísli Þór Gunnarsson voru dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir sinn hlut. Til frádráttar dómi kemur gæsluvarðhaldsvist
Sakborningarnir voru dæmdir til að greiða fórnarlömbum milljónir í skaðabætur auk vaxta. Þá ber þeim einnig að greiða allan sakarkostnað.
Mennirnir fimm voru meðal annars ákærðir fyrir þrjár stórfelldar líkamsárásir og frelsissviptingu. Stefán Logi var auk þess ákærður fyrir að hóta að drepa barnsmóður sína og föður hennar.
Vararíkissaksóknari fór fram á 6 ára fangelsi yfir Stefáni Loga fimm og hálfs árs fangelsi yfir Stefáni Blackburn og 3-4 ára fangelsi yfir Davíð Frey, Hinriki Geir og Gísla Þór fyrir að hafa svipt tvo unga karlmenn frelsi sínu, haldið þeim í margar klukkustundir og beitt þá mjög alvarlegu ofbeldi á þeim tíma.