Óvenju grófar líkamsárásir

Stefán Blackburn, Stefán Logi Sívarsson og Hinrik Geir Helgason við …
Stefán Blackburn, Stefán Logi Sívarsson og Hinrik Geir Helgason við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Héraðsdómur Reykjavíkur, sem dæmdi Stefán Loga Sívarsson og Stefán Blackburn í sex ára fangelsi í dag, segir að þegar refsing hafi verið ákveðin verði að hafa í huga að þeir hafi verið sakfelldir fyrir óvenju grófar líkamsárásir sem ekki verði betur séð en í sumum tilfellum hafi verið pyntingar.

Fram kemur í dómnum, sem er mjög ítarlegur, að þeir hafi svipt þeir brotaþola frelsi í langan tíma og beitti Stefán Logi mann nauðung. 

Í dómnum segir, að þeir hafi svipt brotaþola, sem um geti í ákæru ríkissaksóknara, frelsi í langan tíma og beitti Stefán Logi annan þeirra nauðung. Hvorugur brotaþola hafði gert nokkuð það á hlut ákærðu er gat gefið þeim tilefni til þessara árása.

Þá er ákærði Stefán Logi sakfelldur fyrir lífshættulega atlögu að barnsmóður sinni. 

Auk þeirra var Davíð Freyr Magnússon dæmdur í þriggja og hálfs árs í fangelsi og þeir Hinrik Geir Helgason og Gísli Þór Gunnarsson voru dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi hvor fyrir sinn hlut. 

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur mönnunum 2. október síðastliðinn og framhaldsákæru sem var gefin út 14. október sl. Hún er í fjórum köflum.

Í fyrsta kafla ákæru ríkissaksóknara er þeim Stefáni Loga, Stefáni Blackburn, Gísla Þór og Hinriki Geir gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás á mann og að hafa svipt hann frelsi. Þeir neituðu allir sök. 

Héraðsdómur komst m.a. að þeirri niðurstöðu að þeir Gísli Þór og Hinrik Geir hefðu svipt manninn frelsi sínu, flutt hann á milli staða og að það hefði verið gert að undirlagi Stefáns Loga. 

Stefán Logi er m.a. sakfelldur fyrir að ráðast á barnsmóður sína og vefja belti um háls hennar, en í niðurstöðu dómsins kemur fram að það sé „stórhættulegt að vefja belti utan um háls manns og herða að.“ Brotið varðar 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, þar segir: „Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.“

Hann er jafnframt fundinn sekur um að hafa haft í hótunum við barnsmóður sína. Sömuleiðis fyrir húsbrot og líkamsárás er hann var staddur á heimili foreldra barnsmóður sinnar. Hann var sakfelldur fyrir að ráðast á föður hennar, fyrir að hafa komið þangað í heimildarleysi og fyrir eignarspjöll.

Stefáni Loga og Stefáni Blackburn var m.a. gefið að sök að hafa beitt mann ofbeldi, en þeir voru sakaðir um að hafa slegið manninn ítrekað með hnefum í andlit, með stórri kylfu í hnéskeljar, handarbak hans og með minni kylfu ítrekað í höfuð og kinnbein sem við það brotnaði, stungu hann og skáru ítrekað með eggvopni og klipptu í eyru hans. Stefán Blackburn var sakaður um að hafa stungið manninn óhreinum sprautunálum ítrekað á meðan ákærði Stefán Logi hélt honum auk þess sem aðrir ákærðu tóku þátt í að slá manninn.

Þeir voru sakfelldir fyrir að beita manninn harkalegu ofbeldi, sem varðar við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en þeir voru sýknaðir af því að hafa stungið hann með óhreinum sprautunálum og klippt í eyru hans.

Einnig eru þeir sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga, en þar segir: „Hver, sem sviptir annan mann frelsi sínu, skal sæta fangelsi allt að 4 árum.“

Héraðsdómur taldi hins vegar ósannað að Stefán Logi hefði slegið manninn með keðju í andlitið, líkt og honum var gefið að sök í ákæru. Aftur á móti þótti sannað að hann hefði slegið manninn ítrekað hnefahögg í andlitið.

Honum var jafnframt gefið að sök að hafa stungið brotaþolann með óhreinum sprautunálum en um þetta eru engin gögn og var hann því sýknaður af þessu ákæruatriði. Hann var jafnframt sýknaður af því að hafa stungið manninn með skrúfjárni í axlir og brjóst. Stefán Logi var ennfremur sýknaður af því að hafa stungið manninn ítrekað með dúkahníf þegar verið var að flytja hann á milli staða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert