„Viðgerð var lokið og vélin lögð af stað en henni var snúið til baka á flugvellinum vegna sama vandamáls að því er talið er,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, en í gærkvöldi kom upp bilun í flugvél Icelandair við brottför frá Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn.
Voru farþegar vélarinnar sendir á hótel í kjölfarið.
Greint var frá því á mbl.is fyrr í dag að búið væri að gera við umrædda flugvél og hún lögð af stað til Keflavíkur. Sökum þess að vélvirkjar Icelandair, sem sendir höfðu verið til Kaupmannahafnar í morgun til þess að gera við vélina, töldu viðgerð lokið var fallið frá þeirri áætlun að senda aðra flugvél eftir farþegunum.
Nú hefur hins vegar komið í ljós að bilunin, sem talin er vera í rafkerfi flugvélarinnar, sé mun umfangsmeiri en talið var í fyrstu. Hefur því verið ákveðið að setja upp flug sem fer frá Kaupmannahöfn til Íslands í fyrramálið. Reiknað er með því að sú vél leggi af stað frá Kastrup-flugvelli um hádegi á íslenskum tíma.
Flugfarþegar Icelandair verða því fluttir á hótel aðra nótt í röð. Flugvirkjar Icelandair munu svo halda viðgerð áfram og áformað er að fljúga vélinni tómri heim að henni lokinni.
Farþegar og aðstandendur þeirra sem hafa sett sig í samband við mbl.is eru afar ósáttir. Hafa farþegarnir orðið að bíða á Kastrup-flugvelli í allan dag og segjast þeir hafa fengið litlar sem engar upplýsingar. Einn aðstandandi, sem hafði samband, segir að búið sé að flytja farþega á hótel en að það eigi enn eftir að úthluta þeim herbergi.