Bilun kom upp í flugvél Icelandair við brottför frá Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Var í kjölfarið ákveðið að senda flugfarþega vélarinnar á hótel á meðan unnið var að viðgerð. Vélin er nú á leið til Íslands.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við mbl.is að flugumsjón hafi fyrir skömmu síðan haft samband við sig og sagt vélina vera að fara í loftið frá Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn.
Að sögn Guðjóns var bilunin þess eðlis að ekki var unnt að leysa hana í gærkvöldi og þurftu farþegar því að bíða í Kaupmannahöfn í tæpan sólarhring.