Hatur breyttist í stolt samfélagsins

Geir Lippestad á fundi Lögmannafélags Íslands á Nordica í gær.
Geir Lippestad á fundi Lögmannafélags Íslands á Nordica í gær. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þegar norski lögmaðurinn Geir Lippestad kveikti á síma sínum eftir að hafa lýst því yfir að hann myndi verja Anders Breivik biðu hans 3560 skilaboð og tölvupóstar. Lippestad flutti framsögu á síðdegisfundi Lögmannafélags Íslands í gær.

Hann segir að skipta megi viðbrögðum fólks í þrennt. Í fyrsta hópnum hafi verið fólk sem hótaði honum limlestingum og dauða. Í öðrum hópnum hafi verið viðskiptavinir á lögmannsstofu hans sem sögðu að þeir vildu ekki lengur láta hana fara með mál sín. Þriðji hópurinn hafi verið fjölmiðlar sem vildu fá að vita hvers vegna hann hefði ákveðið að taka að sér málið. Segir hann fjölmiðla á Norðurlöndum hafa verið mun yfirvegaðri en fjölmiðla í Bandaríkjunum, Rússlandi og í Þýskalandi sem töldu ákvörðun hans ótæka.

Anders Breivik myrti 77 manns í Ósló og Útey í Noregi þann 23. júlí árið 2011. Geir mátti þola hatur samborgara sinna eftir að hann tók málið að sér. 

Hann segir að hann hafi þurft að spyrja sig áleitinna spurninga áður en hann tók að sér málið. „Hafa ekki allir rétt á grundvallar-mannréttindum óháð alvarleika glæpsins?“ spurði Lippestad sig áður en hann tók að sér vörnina. Í kjölfarið mátti hann sæta fordæmingu almennings og fjölmiðla sem gerðu því skóna að hann væri hægriöfgamaður líkt og Breivik. Einnig var honum tjáð að börn hans væru ekki velkomin á leikskólann sem þau sóttu og hakakrossinn málaður á hús hans. Þá sneru sumir kollega hans í lögfræðingastéttinni baki við honum.

Samræða um gildi samfélagsins

Hann segir þó að málið hafi vakið samtal í norsku samfélagi um hlutverk stofnana og þau grunngildi sem samfélagið byggist á. Að tveimur mánuðum liðnum hafi hann fundið fyrir áherslubreytingu í norsku samfélagi og að fjölmiðlar og almenningur hafi sýnt stöðu hans sem verjanda meiri skilning eftir því sem leið á réttarhöldin. Þá segir hann að reiðin hafi breyst í stolt samfélagsins yfir því að Breivik fengi notið grundvallar-mannréttinda. Í því samhengi benti hann á yfirveguð viðbrögð Jens Stoltenbergs forsætisráðherra sem neitaði að tjá sig um sekt Breiviks, heldur benti á að það væri ekki hans hlutverk að fella dóma í sakamálum.

Framsaga Lippestad bar yfirskriftina: Hlutverk og skyldur verjenda í réttarríki. Meðal þess lærdóms sem Lippestad segir að megi draga af málinu er að mikilvægt sé fyrir samfélagið að ræða það fyrir hvaða gildi það standi áður en til slíkra aðstæðna kemur.

Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélagsins, hélt stutta tölu fyrir framsöguna þar sem hann benti á að líkindi mætti finna í íslensku samfélagi þar sem einnig væri þrýst á um sakfellingu í málum tengdum bankahruni, bæði úr fjölmiðlum og meðal almennings.

Anders Behring Breivik ásamt verjanda sínum, Geir Lippestad.
Anders Behring Breivik ásamt verjanda sínum, Geir Lippestad. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka