Farþegarnir sem hafa setið fastir í Kaupmannahöfn vegna bilunar í flugvél Icelandair á Kastrup-flugvelli eru nú á leið heim, en vél sem send var til Danmerkur til að ná í þá fór í loftið nú skömmu fyrir kl. 12.
Í fyrradag kom upp bilun í flugvélinni sem varð til þess að hætta þurfti við brottför og voru farþegar sendir með rútum á hótel. Í gær var talið að búið væri að laga bilunina en annað kom á daginn og þurftu farþegarnir að gista aðra nótt.
Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, fengu strandaglóparnir hefðbundna þjónustu sem veitt er þegar flugvél seinkar. „Þeim var séð fyrir viðurværi, mat og drykk og svo hótelgistingu. Það í sjálfu sér gekk allt saman vel þótt þetta hafi auðvitað tekið allt of langan tíma með tilheyrandi óþægindum fyrir alla þá sem að þessu koma,“ segir Guðjón.
Sjá frétt mbl.is: Vélin bilaði aftur