Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, á ekki von á því að nýr ráðherra komi inn í ríkisstjórn landsins á næstu vikum.
Þetta kom fram í máli hans í þættinum Sunnudagsmorgunn en þar ræddu þeir Gísli Marteinn Baldursson,stjórnandi þáttarins, meðal annars um landbúnaðarmál og innflutning á landbúnaðarvörum. Eins var fjallað um seðlabankastjóra og fjölda þeirra. Sigmundur Davíð segir að verið sé að vega og meta hvort seðlabankastjórar eiga að vera fleiri en einn.
Sigmundur Davíð segir að hann sé ósammála vaxtastefnu Seðlabankans og að það væri æskilegt að bankinn gerði meira af því að endurmeta stöðu sína.
Ræddu þeir meðal annars ummæli forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í liðinni viku þar sem hann ræddi um pólitíska krossfara úr háskólasamfélaginu.
„Það veldur því dálitlum áhyggjum að það virðist verða vart löngunar til að fá útrás vegna gremju síðustu ára, ára þegar margir atvinnurekendur höfðu á orði að fjandskapur við atvinnulífið væri slíkur að menn lifðu í ótta og legðu ekki í að tjá sig um stefnu stjórnvalda. Eftir þolinmæði síðasta kjörtímabils er eins og sumir af forvígismönnum atvinnurekenda telji sig þurfa að bæta fyrir tapaðan tíma. Dæmi eru um að þeir telji best að gera það með því að skipa sér á bekk með pólitískum krossförum úr háskólasamfélaginu eða líkja eftir upphrópanaorðræðu internetsins,“ sagði forsætisráðherra á Viðskiptaþingi.
Í þættinum talaði hann um að ár eftir ár kæmu alltaf sömu háskólaprófessorarnir fram í fjölmiðlum og töluðu um hin ýmsu mál, meðal annars landbúnað án þess að færa nægjanleg rök fyrir orðum sínum.
Gísli Marteinn spurði Sigmund Davíð út í orð hans um nýjan framsóknarráðherra sem að sögn Gísla Marteins hefði átt að kynna til sögunnar fyrir áramót. Sigmundur Davíð sagði þetta ekki rétt hjá Gísla Marteini, hann hefði talað um í kringum áramót. Ljóst sé að nýr ráðherra framsóknarmanna verður ekki kynntur til starfa á næstu vikum en samt sem áður fljótlega.
Sigmundur Davíð sagði við Gísla Martein að hann ætti að fá fleiri af landsbyggðinni sem viðmælendur í þættinum og að Gísli Marteinn hafi staðið sig ágætlega í að sanna að hann væri ekki að tala sérstaklega fyrir ríkisstjórnina í þættinum.