Ríkissaksóknari mun á fimmtudaginn fá í hendur gögn vegna rannsóknar tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á skotárásinni í Hraunbæ. Í kjölfarið mun hann fara yfir öll rannsóknargögn málsins og taka ákvörðun um afgreiðslu þess.
Í svari ríkissaksóknara við fyrirspurn mbl.is segir að að því loknu verði opinberlega gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar og afgreiðslu málsins. Meðferð málsins við embættið muni taka einhverjar vikur.
Umsátursástand átti sér stað í Hraunbæ í Árbænum að morgni 2. desember sl. Karlmaður skaut ítrekað af haglabyssu í íbúð sinni og síðan á lögregluna þegar hún mætti á staðinn. Hann féll fyrir skotum lögreglu þegar þess var freistað að fara inn í íbúðina og yfirbuga hann. Maðurinn átti við geðræn vandamál að stríða.
Tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði áður málið og fær ríkissaksóknari nú í hendur gögn frá henni.