Ráðherrar viðskiptamála níu ríkja Evrópusambandsins rituðu grein í breska viðskiptablaðið Financial Times í gær um yfirstandandi fríverslunarviðræður á milli sambandsins og Bandaríkjanna. Þar hvetja ráðherrarnir til þess að samningsaðilar missi ekki sjónar af því hversu mikilvægt það sé fyrir hagsmuni beggja aðila að ná samkomulagi.
Ráðherrarnir taka ennfremur fram að þeir telji að áhrif fríverslunarviðræðnanna verði jákvæð á alþjóðaviðskiptakerfið í heild og vísa í rannsóknir þess efnis. Þá hafi nokkrar af viðskiptaþjóðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins lýst áhuga á mögulegum fríverslunarsamningi og leggja þeir áherslu á að fleiri ríkjum verði gert kleift að gerast aðilar að samningnum.
„Mikilvægt er að horfa til þess að nokkrar viðskiptaþjóðir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna hafa lýst yfir áhuga sínum á fríverslunarsamningnum. Rannsóknir sýna að jákvæð efnahagsleg áhrif hans nái langt út fyrir hagkerfi Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Við munum vinna af heilum hug að því að fleiri ríkjum verði gert kleift að gerast aðilar að samningnum.“
Undir greinina rita Ewa Björling viðskiptaráðherra Svíþjóðar, Mogens Jensen viðskiptaráðherra Danmerkur, Alexander Stubb ráðherra Evrópumála og utanríkisviðskipta í ríkisstjórn Finnlands, Ian Livingston viðskiptaráðherra Bretlands, Jaime García-Legaz Ponce viðskiptaráðherra Spánar, Lilianne Ploumen, ráðherra utanríkisviðskipta í hollensku ríkisstjórninni, Richard Bruton atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Írlands, Carlo Calenda aðstoðarviðskiptaráðherra Ítalíu og Janek Mládek iðnaðar- og viðskiptaráðherra Tékklands.