Eflaust fengu áhorfendur í dómsal 101 aðeins að sjá lítið brot af ólíkindasögu Sigurðar Kárasonar á árunum 2006 til 2010. Á þeim tíma fékk hann fólk á förnum vegi til að láta sig hafa á annað hundrað milljónir króna, fólk sem þekkti ekkert til hans en sýndi honum engu að síður fullkomið traust.
Sigurður, sem ákærður er fyrir að hafa svikið á annað hundrað milljónir króna af sextán manneskjum, mætti sjálfur ekki til aðalmeðferðar í málinu sem hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fórnarlömb hans komu hins vegar eitt af öðru og greindu frá samskiptum sínum við Sigurð. Flest þeirra báru sig aumlega enda illa svikin og sumir milljónum fátækari.
Til að taka dæmi má nefna stöðvarstjóra bensínstöðvar. Sigurður vandi komur sínar á bensínstöðina og drakk kaffi með starfsfólkinu. Samskiptin hófust á árinu 2006 og á tveimur árum hafði stöðvarstjórinn fengið Sigurði 4,9 milljónir í hendur.
Stöðvarstjórinn sagðist hafa látið glepjast af fagurgala Sigurðar og loforðum um ríkulega ávöxtun. En Sigurður sagði ávöxtunina alltaf klikka og meiri pening þurfa til að ráðagerðin gengi eftir. Endurgreiðslan lét svo á sér standa.
Sigurður vandi komur sínar víða. Meðal annars í vínbúð eina á höfuðborgarsvæðinu. Þar fékk hann alltaf sama manninn til að sérpanta fyrir sig ákveðna víntegund. Samskiptin hófust á árinu 2006 og stóðu fram á árið 2009. Á þeim tíma lét starfsmaðurinn Sigurð fá rúmar 16 milljónir til að kaupa krónubréf.
„Hann kom til mín og sagðist geta hjálpað mér að græða. Ég tók þessu fálega en hann var sannfærandi og nánast dáleiðandi,” sagði maðurinn. „Hann ætlaði að kaupa krónubréf sem hægt væri að selja stuttu síðar á mun hærra verði.”
Sigurður endurgreiddi alltaf hluta en fékk meiri pening í staðinn. „Þetta var bara svo mikil vitleysa að ég hef ekki lent í öðru eins.” Enn eru 5,3 milljónir króna ógreiddar.
Á árinu 2008 lenti Sigurður í umferðaróhappi. Hann hóf að hringja reglulega í ökumann hins bílsins og spyrja um líðan hans. Eftir að hafa unnið traust hans sagðist Sigurður vera með framvirka gjaldmiðlasamninga og til að losa um þá þyrfti hann fjármagn.
Maðurinn féllst á þetta og lét Sigurð að lokum fá 3,6 milljónir króna. Peninga sína fékk hann hins vegar aldrei að fullu greidda og því aldrei neina ávöxtun sem lofað var.
Á svipuðum tíma fór Sigurður með bifreið sína í viðgerð. „Hann kom gríðarlega vel fyrir og það stóðst allt í tengslum við viðgerðina,” sagði eigandi verkstæðisins fyrir dómi í dag. Hann lét tilleiðast og fékk Sigurði allt sparifé sitt til að taka þátt í gjaldeyrisviðskiptum. Þegar upp var staðið hafði Sigurður fengið þrettán milljónir frá honum. „Hann hafði gríðarlega góða þekkingu í að tala skynsamlega um þetta. En það stóðst ekki neitt.”
Maðurinn fékk eitthvað til baka en enn standa sjö milljónir út af borðinu.
Þegar dóttir Sigurðar var í fermingafræðslu kynntist Sigurður prestinum Erni Bárði Jónssyni. Þeirra samskipti áttu sér stað frá nóvember 2008 til maí 2010 en Sigurður fór að venja komur sínar í kirkjuna til Arnar til að snæða þar hádegismat og spjölluðu þeir þá oft saman.
Örn sagði Sigurð hafa beðið um hjálp við að leysa úr gjaldmiðlasamningi hjá Seðlabanka Íslands. „Ég hafði enga ástæðu til að vantreysta honum. Ég lét hann fá ákveðna upphæð og hann segist ætla að borga til baka eftir viku. Hann kom með helminginn en sagðist þurfa meiri pening.”
Örn Bárður greiddi Sigurði 9,9 milljónir í 15 færslum. Hann sagði Sigurð hafa spunnið ótrúlegar sögur og sýnt mikla leikfimi við að halda þessu gangandi. Ég þarf milljón eftir hádegið og þá ert þetta komið,” sagði Örn að Sigurður hafi eitt sinn sagt. „Hann sór við gröf föður síns. Þetta er það versta sem ég hef lent í á ævinni.”
Af frásögnum vitna í málinu má sjá að Sigurður kom víða við á daginn. Þannig kom hann oft við í hádeginu á veitingastað í Reykjavík þar sem gamall bekkjarfélagi hans starfaði. Með þeim tókst vinskapur að nýju og ekki stóð á beiðni Sigurðar eftir aðstoð. „Ég hafði ósköp litla peninga milli handanna en vildi hjálpa honum. Ég gat reitt út nokkur hundruð þúsund. Hann lofaði mér einhverjum mismun en það var ekki hvatinn hjá mér heldur hafði myndast með okkur góður vinskapur.”
Hann sagði Sigurð hafa lofað að borga til baka mjög fljótt og sagðist svo alltaf vera að reyna redda þessu. „Ég gat með herkjum reddað þessum peningum fyrir hann.”
Þá kom fyrir dóminn maður sem þekkti til Sigurðar vegna fjölskyldutengsla. Sá vissi af sögu hans en lét hann engu að síður fá 13 milljónir króna, andvirði jarðar sem hann seldi skömmu áður. „Maður skammast sín fyrir það en ég trúði að þetta myndi skila sér. Ég hefði helst vilja gleyma þessu máli.”
Einnig gaf skýrslu maður sem sagðist hafa þekkt Sigurð í nokkra tugi ára. Hann lánaði Sigurði sex milljónir. „Hann sagðist ætla að borga til baka. Ég hélt að hann væri borgunarmaður.” Hann fékk 200 þúsund krónur endurgreiddar.
Spurður af verjanda Sigurðar hvers vegna hann setti ekki fram bótakröfu í málinu stóð ekki á svari: „Ég hef ekki efni á mönnum eins og þér.” Fleiri fórnarlömb svöruðu því til að þau hefðu ekki haft efni á að setja fram bótakröfu.
Enn eru ónefndir feðgar sem báðir létu Sigurð fá pening með þá von í brjósti að þeir væru að ávaxta pund sitt og starfsmaður í Nóatúni sem Sigurður vatt sér upp að og bauðst til að kaupa gjaldeyri fyrir.
Skýrslutökum yfir vitnum lauk í dag og heldur aðalmeðferð áfram á miðvikudag en þá fer fram munnlegur málflutningur.
Frétt mbl.is: Mætti ekki fórnarlömbum sínum
Frétt mbl.is: Segist engan hafa svikið
Frétt mbl.is: Sviðin jörð svikara