Það verður að teljast óheppilegt að ekki hafi tekist að opna og leggja fram samningsafstöðu í fjórum köflum í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið, að því er segir í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og þróunarinnar innan sambandsins sem kynnt var í dag.
Í skýrslunni segir að þegar hlé hafi verið gert á viðræðum við Evrópusambandið hafi 27 kaflar verið opnaðir og 11 þeirra lokað til bráðabirgða. Samningsafstaða hafi hins vegar ekki legið fyrir í fjórum köflum, landbúnaðarkafla, sjávarútvegskafla, kafla um frjálsa fjármagnsflutninga og kafla um staðfesturétt og þjónustufrelsi.
Segja skýrsluhöfundar það hafa verið óheppilegt að ekki hafi tekist að opna þessa kafla, sér í lagi þar sem gera mátti ráð fyrir því í byrjun að verulega myndi reyna á mikilvæg álitamál í þessum köflum, sérstaklega hvað varðar landbúnað og sjávarútveg.
Ætla megi að kaflarnir um frjálsa fjármagnsflutninga og staðfesturétt og þjónustufrelsi tengist málum í sjávarútvegskaflanum, þá aðallega hvað varðar takmarkanir á erlendum fjárfestingum í sjávarútvegi.
Í skýrslunni segir að hvað landbúnaðarkaflann varðar hafi legið fyrir aðgerðaáætlun um undirbúning Íslands og hafði hún verið afhent Evrópusambandinu sem hafði samþykkt hana fyrir sitt leyti og boðið íslenskum stjórnvöldum að leggja fram samningsafstöðu sína. Ekki hafi hins vegar tekist að klára vinnu við samningsafstöðuna áður en viðræðunum var frestað.
Ætla má að treglega hafi gengið að sætta ólík sjónarmið hér innanlands,“ kemur fram í skýrslunni.
Málum hafi hins vegar verið öðruvísi farið varðandi sjávarútvegskaflann. Þegar viðræðum hafi verið slegið á frest hafði framkvæmdastjórn ESB ekki lagt fram rýniskýrslu og Ísland gat því ekki lagt fram samningsafstöðu sína.
„Ef litið er til meirihlutaálits utanríkismálanefndar Alþingis sem leiðarvísis um hugsanlega áhersluþætti í viðræðunum, sem og framvinduskýrslna Evrópusambandsins má ætla að erfitt hefði getað reynst að ná saman.
Má þar nefna atriði eins og formlegt forræði yfir auðlindum sjávar, takmarkanir við fjárfestingar og forsvar á alþjóðavettvangi,“ að því er segir í skýrslunni.
Hér má finna skýrsluna í heild sinni.