ESB sagði sig frá afnámi haftanna

Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB.
Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti íslenskum stjórnvöldum á síðari hluta ársins 2013 að í ljósi breyttrar stöðu Íslands sem umsóknarríkis að sambandinu ætlaði hún ekki að taka frekari þátt í störfum sérstaks vinnuhóps sem settur var á laggirnar um mitt ár 2012 um afnám gjaldeyrishafta.

Þetta er haft eftir Tómasi Brynjólfssyni, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og þróunarinnar innan sambandsins sem unnin var fyrir stjórnvöld. Vinnuhópurinn var skipaður fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins með aðkomu fulltrúa Evrópska seðlabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og utanaðkomandi sérfræðings.

Stjórnvöld áfram í góðu samstarfi við AGS

Tómas segir í samtali við mbl.is að vinnuhópurinn hafi verið settur á laggirnar fyrir tilstilli stækkunarskrifstofu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og umrætt bréf hafi borist frá henni. Þar hafi komið fram að framkvæmdastjórnin liti svo á að starfi nefndarinnar væri sjálfkrafa hætt í ljósi breyttrar stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í smabandið. „En við eigum náttúrlega áfram í góðu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“

Spurður í hverju aðkoma framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Evrópska seðlabankans hafi falist segir Tómas að hún hafi byggst á ráðgjöf og hugmyndavinnu. „Þeir voru að gefa ráð um það hvað þeim fannst að við ættum að gera. Þetta voru frekar ráðleggingar en annað.“ Spurður hvort í boði hafi verið að hálfu Evrópusambandsins að beita sér með einhverjum hætti til þess að aflétta mætti gjaldeyrishöftunum segir hann svo ekki hafa verið.

Brotthvarf ESB hefur enga úrslitaþýðingu

Spurður að því hvort aðkoma Evrópusambandsins að málinu hafi haft einhverja úrslitaþýðingu varðandi afnám gjaldeyrishafta segir Tómas svo ekki vera. „Það var gott að halda fólki upplýstu og fá alla aðila að borðinu en þetta hafði enga úrslitaþýðingu í málinu.“ Eftir sem áður þyrftu íslensk stjórnvöld að sjá um að afnema gjaldeyrishöftin og það hafi þurft að gera áður en Ísland gæti gengið í sambandið.

Þess má geta að Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, sagði í umræðum á Alþingi 20. desember 2012 að aðkoma Evrópusambandsins að afnámi gjaldeyrishafta fælist í ráðgjöf. Þá kom einnig fram í máli hennar að forsenda þess að Ísland gengi í sambandið væri að höftin hefðu fyrst verið afnumin. Vísaði hún í því sambandi í bréf þingmannanefndar um afnám þeirra. Þetta kom einnig fram á fundi Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi utanríkisráðherra, og Štefans Fühle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, sem fram fór 24. maí sama ár.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert