„Mér finnst það leitt, mér finnst það grábölvað,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á Alþingi í dag. Vísaði hann til þess að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefði komist í hendur netmiðla áður en henni væri dreift til þingmanna og birt á vefsíðu þingsins. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu það harðlega að skýrslan væri komin til fjölmiðla og sögðu það brot á samkomulagi um meðferð málsins. Ennfremur að skýrslan hefði verið kynnt fyrir stjórnarþingmönnum í gær.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sakaði stjórnarliða um að leka skýrslunni og Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði málið niðurlægjandi fyrir þingið og skammarlegt fyrir ríkisstjórnina. Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, kallaði eftir því að umræðum um skýrsluna yrði frestað til þess að stjórnarandstaða og stjórnarliðar stæðu jafnfætis gagnvart málinu.
Gunnar Bragi sagðist taka undir þá gagnrýni og sagðist ekki kunna skýringar á því að skýrslan hefði komist til fjölmiðla í morgun. Stjórnarþingmenn hefðu fengið stutta kynningu á skýrslunni í gærkvöldi sem væri ekki óeðlilegt en ekki hafi staðið til að efni hennar færi lengra fyrr en henni hefði verið dreift á Alþingi og birt á vefsíðu þingsins. Undir þetta tók Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Utanríkisráðherra sagði annars lítið að gera annað en að læra af málinu. Það ætlaði hann að gera. Hins vegar væri verkefnið framundan að ræða um skýrsluna og vonandi yrði hægt að hefja þá umræðu á morgun.