Niðurgreiðslur leiða til ofveiði

Fiskveiðistefna ESB hefur leitt til ofveiði.
Fiskveiðistefna ESB hefur leitt til ofveiði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Afleiðingar niðurgreiðslna til sjávarútvegs innan Evrópusambandsins eru ofveiði, offjárfesting í fiskiskipum, óhagkvæmni og að mögulegum efnahagslegum ávinningi auðlindarinnar verður ekki náð, að því er fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og þróunarinnar innan sambandsins sem unnin var fyrir stjórnvöld.

Í skýrslunni segir að sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins beri mark af þeim vandamálum sem sjávarútvegur í aðildarlöndunum hafi átt við að glíma. Þau vandamál séu nokkuð annars eðlils en þau sem við þekkjum hér á landi.

„Helstu viðfangsefnin í sjávarútvegi Evrópusambandslandanna hafa snúist um ofveiði, offjárfestingar í skipum og slæma afkomu í greininni,“ segir jafnframt í skýrslunni.

Erfitt að átta sig á nákvæmu umfangi

Þá segir að niðurgreiðslur til sjávarútvegs innan sambandsins séu umtalsverðar en að erfitt sé hins vegar að átta sig á nákvæmu umfangi þeirra. 

Sjávarverndunarsamtökin Oceana hafa metið að niðurgreiðslur í sjávarútvegi innan ESB hafi numið að minnsta kosti 3,3 milljörðum evra árið 2009. Meira en tveir þriðju af upphæðinni hafi þau áhrif að auka veiðigetu fiskveiðiflotans og stuðla þannig að ofveiði. 

Að mati Oceana er um 1 milljarðs evra niðurgreiðsla beint úr Evrópska fiskveiðisjóðnum
og 886 milljónir evra í formi annars stuðnings. Niðurgreiðslur vegna eldsneytiskaupa eru
metnar um 1,4 milljarðar evra. Niðurgreiðslurnar jafngilda því sem næst 50% af verðmæti
landaðs afla, að því er fram kemur í skýrslunni.

Þar kemur einnig fram að áætlað hafi verið að um 47% stofna í Atlantshafi séu ofveiddir, en 95% af stofnum í Miðjarðarhafi.

Samkvæmt rannsókn World Wildlife Fund frá árinu 2012 höfðu ráðherrar Evrópusambandsins ennfremur lagt til heildarafla sem að meðaltali var 45% meiri en vísindaleg ráðgjöf sagði til um síðustu níu árin áður.

„Þar fer því saman líffræðileg og efnahagsleg ofveiði með fyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir ástand lífríkisins og atvinnugreinina,“ segir í skýrslu Hagfræðistofnunarinnar.

Hér má finna skýrsluna í heild sinni.

mbl.is/Helgi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert