Stuðningur við landbúnað meiri hér á landi

Stuðningur við landbúnað er meiri hér á landi en innan …
Stuðningur við landbúnað er meiri hér á landi en innan ESB. mbl.is/Sigurður Bogi

Stuðningur við landbúnað er meiri hér á landi en væri samkvæmt styrkjakerfi Evrópusambandsins, að því er segir í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og þróunina innan sambandsins sem kynnt var í dag.

Þar segir að íslenskur landbúnaður sé að mörgu leyti frábrugðinn landbúnaði í Evrópusambandinu. Náttúrlegar aðstæður til landbúnaðarframleiðslu séu að mörgu leyti verri hérlendis og einnig sé stuðningskerfi íslenskra stjórnvalda mjög frábrugðið því sem Evrópusambandið styðst við.

Stuðningur til framleiðenda landbúnaðarafurða hérlendis er annars vegar að mestu leyti í formi framleiðslustyrkja, að því er fram kemur í skýrslunni, og hins vegar í formi umfangsmikillar tollverndar.

„Starfsumhverfi og lagaumgjörð stuðningskerfisins hérlendis er þar af leiðandi eðlisólík
því kerfi sem komið hefur verið á fót innan Evrópusambandsins,“ segir í skýrslunni. 

Þar segir jafnframt að styrkjakerfi Evrópusambandsins hafi fjarlægst styrkjakerfi við landbúnað hér á landi. Hitt sé óvíst hvort það torveldar íslenskum bændum að laga sig að kerfi sambandsins.

Hér má finna skýrsluna í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert