Það er dapurleg staðreynd að sex samningskaflar höfðu ekki enn verið opnaðir þó samningsafstaða hafi þegar legið fyrir, dapurleg staðreynd. Þar af hvorugum þeirra sem Íslendingar höfðu lagt sérstaka áherslu á, landbúnaðar- og sjávarútvegsmál,“ sagði Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra á Alþingi í dag. Umræðuefnið var skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu Evrópusambandsumsóknarinnar og þróun sambandsins.
„Enn er tekist á um það á Alþingi hvort mögulegt sé að við náum undanþágum á ákveðnum sviðum. Sérlausnir virðast vera aðalumræðuefnið hér á Alþingi,“ sagði Bjarni og fór svo yfir eðli þeirra undanþága sem Evrópusambandið hefur áður veitt og undir hvaða kringumstæðum þær voru veittar.
„Hvernig bar undanþágan að sem Danir fengu í gjaldeyrismálum? Það var þannig að verið var að útvíkka samstarf evruríkjanna og við þær aðstæður átti hvert og eitt aðildarríki neitunarvald sem gat sett allt stækkunarferlið í algert uppnám. Við þær aðstæður náðu Danir sinni undanþágu.“
„Sum ríki þurftu ekki að taka upp evruna. Þá var Evrópusambandið í stækkunarferli, einstök ríki höfðu neitunarvald eða settu fyrirvara um að þeir myndu ekki taka þátt í viðkomandi myntsamstarfi eða samstarfi á öðrum sviðum. Greinarmun verður að gera á þessum undantekningum og svo undanþágum umsóknarríkja frá ESB löggjöfinni. Sumar undanþágur, til dæmis undanþága Möltu eru byggðar á afleiddri löggjöf sambandsins. Þetta þýðir að sambandið getur síðar breytt viðkomandi löggjöf með meirihlutaákvörðun. Í tilviki ríkisstuðnings við landbúnað er líka um að ræða reglur sem ekki eru hluti stofnsáttmálans heldur þarf framkvæmdastjórn ESB að heimila ríkisstyrki, allt er þetta sambandslöggjöf. Hvergi er í aðildarsamningi tekið fram að ríki, hvort sem það sé Ísland, Danmörk eða Noregur, að löndin muni fá landbúnaðarstyrki um aldur og ævi.,“ sagði Bjarni að lokum.