Fleiri tugir manna í neti Sigurðar

Sigurður Kárason
Sigurður Kárason mbl.is/Rósa Braga

Við upphaf rannsóknar lögreglu höfuðborgarsvæðisins á Sigurði Kárasyni kom í ljós að hann var með tugi manna í neti sínu. Sextán stóðu eftir sem tilbúnir voru að kæra hann en aðrir voru ekki reiðubúnir til þess enda höfðu þeir fengið peninga sína til baka, með framlögum frá öðrum fórnarlömbum hans. Saksóknari fer fram á ekki vægari refsingu en þriggja ára fangelsi.

Munnlegur málflutningur í máli ákæruvaldsins gegn Sigurði Kárasyni hófst við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. Sigurður er ákærður fyrir að hafa svikið á annað hundrað milljónir króna út úr sextán einstaklingum. Hann neitar sök.

Saksóknari hóf leik í morgun sagði aðferð Sigurðar ekki ólíka því sem gengur og gerist í Nígeríusvindli. Sífellt þurfi meiri pening til að fá pening en aldrei skilast neitt. Fórnarlömb Sigurðar séu alls kyns fólk úr samfélaginu, menntað og ómenntað, vinnandi og sjúklingar. Og framburður allra, með fáeinum undantekningum, er á sama vegu.

Hann benti á að það væri ekki einu sinni svo að Sigurður trúi eigin sögum enda sé hann sífellt að reyna draga fleiri inn í svikamyllu sína. Hann sé svo bíræfin að hann óskaði eftir því við bankastarfsmann að hann staðfesti sögur sínar við tiltekna einstaklinga svo þær væru sennilegri.

Þá hafi Sigurður leynt afar bágri fjárhagsstöðu sinni fyrir fólkinu, eina veltan á reikningi hans hafi verið á milli hans sjálfs og fórnarlambanna. Hvergi sé að finna færslur sem tengjast viðskiptum. Öll héldu fórnarlömbin að hann væri fjársterkur, hefði mikil umsvif og væri vel staddur. Reyndin sé hins vegar önnur. Á þeim tíma sem brotin voru framin var Sigurður kominn í gjaldþrotaskipti. „Þannig að hann var ekki illa staddur, hann var gjaldþrota. Það þýðir algjört getuleysi til að standa við fjárskuldir,“ sagði saksóknari.

Aðalmeðferðin heldur áfram.

Frétt mbl.is: „Hann sór við gröf föður síns“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert