„Við vorum að afgreiða málið út úr nefndinni í sátt sem ég tel að sé söguleg í ljósi þess að hér er um að ræða stórt og mikið mál sem verið hefur í töluvert miklum ágreiningi lengi,“ segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, í samtali við mbl.is en lög um náttúruvernd, sem samþykkt voru á síðasta kjörtímabili, voru til umfjöllunar á fundi nefndarinnar í morgun.
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfisráðherra, ákvað á síðasta ári að afturkalla umrædd lög sem taka áttu gildi að óbreyttu 1. apríl á þessu ári. Ráðherrann hugðist leggja fram frumvarp til laga á Alþingi um að fella lögin brott og yrði það samþykkt setja í framhaldinu í gang vinnu við endurskoðun náttúruverndarlaganna. Hafa einkum stjórnarandstæðingar gagnrýnt harðlega þessa ákvörðun Sigurðar Inga.
Höskuldur segir alla fulltrúa í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis standa að sameiginlegu áliti í málinu þó sumir séu með fyrirvara sem þeir muni gera grein fyrir í umræðum um málið í þinginu. „Sáttin felst í því að við munum fresta gildistöku laganna til 1. júlí 2015 í stað þess að fella lögin úr gildi. Við höfum listað upp í sameiginlegri greinargerð helstu álitaefni sem við teljum að fara þurfi betur yfir og skoða.“
Umhverfisráðherra fylgjandi niðurstöðunni
Höskuldur segir að þegar allt hafi komið til alls og litið hafi verið upp úr skotgröfunum hafi ágreiningurinn verið jafnvel minni en talið hafi verið í byrjun. „En vissulega er um að ræða stór og mikilvæg atriði sem fara þarf betur yfir. Ekki aðeins út frá umhverfissjónarmiðum heldur einnig lagatæknilegum sjónarmiðum.“
Umhverfisráðuneytið fær málið til sín í framhaldinu og er umhverfisráðherra að sögn Höskuldar vel með á nótunum og fylgjandi niðurstöðu nefndarinnar. Ráðuneytið muni hefja vinnu við breytingar á þeim ákvæðum laganna sem þurfi að breyta en mun hafa gott samráð við nefndina á þeirri vegferð.
„Ég segi bara fyrir mína parta að ég held að það sé stórkostlegur árangur nefndarinnar í heild sinni að hafa getað fetað sig upp úr sporum tortryggni og ágreinings og getað sest niður í rólegheitum og rætt málið. Við höfum gefið okkur góðan tíma, farið yfir þetta vel og ígrundað og ég held að allir séu mjög sáttir. Og ég verð að hrósa nefndinni fyrir samheldni og samstöðu í þessu máli,“ segir hann að lokum.