„Af því að hlé var gert á aðildarviðræðunum of snemma, fengum við Íslendingar ekki svar við efnislegum spurningum,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar í umræðum á Alþingi í dag um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknarinnar og þróun sambandsins.
„Ræða utanríkisráðherra var ræða manns sem var andsnúinn Evrópusamvinnu. Það merkilega er er að Sjálfstæðisflokkurinn skuli láta teyma sig eins og hund í bandi þegar forystumenn ríkisstjórnin fer fram með þessum hætti. Ræða utanríkisráðherra var varnarræða manns sem óttast umheiminn. Hann reynir að rýna í kristalskúlu til að finna röksemdir fyrir kyrrstöðu.“
„Utanríkisráðherra hæðir hagsmunasamtök atvinnulífsins og sameiginlega úttekt aðila atvinnulífsins og segir að hann muni ekki taka mark á þeirri skýrslu vegna þess hverjir verkbeiðendur eru.“
Árni segir að meiri umræða þurfi að eiga sér stað í nokkrum málum. „Við þurfum frekari umfjöllun um peningamál og þá stöðu sem við erum í. Spurningin um aðild tengist afnámi hafta og hvaða leið við veljum okkur í framhaldinu. Við þurfum betri greiningu á sjávarútvegsþættinum. Við þurfum betri greiningu á stöðu og framtíð EES samningsins heldur en aðeins þá skýrslu sem hér um ræðir. Við búum ekki kyrrstöðu heldur í heimi sem þroskast áfram.“