„Margt er í skýrslunni ágætt þó ég hefði í fyrsta lagi viljað sjá miklu dýpri umfjöllun. Nú er búið að boða þessa skýrslu sem grundvallarplagg um Evrópusambandið og ég hlýt því að staldra hér við það hvernig samanburði er háttað í skýrslunni,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs, í umræðum á Alþingi í dag um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknarinnar og þróun sambandsins.
Hún segir að henni finnist skýrslan bera vott um ákveðin sjónarmið að baki greiningu á ástandinu í Evrópusambandinu. „Í skýrslunni er samanburður við Bandaríkin og Japan og talað er um að vinnumarkaðurinn í Evrópu sé ósveigjanlegur vegna sterkari stöðu stéttarfélaga.“
Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar er talin hafa haft mikil áhrif á uppbyggingu evrusvæðisins að sögn Katrínar. „Við sjáum nú í Evrópu afleiðingu harðrar niðurskurðarstefnu, ójöfnuður er að aukast. Ekki aðeins eru fleiri að verða fátækari heldur fleiri sem fara upp í hátekjuhóp, millistéttin er að þurkast út. Hvers vegna er ekki fjallað meira um félagslega þróun í Evrópu?“ spurði Katrín í ræðustól. Þá sagði hún að hún saknaði heimildarskrár í skýrslunni svo þingmenn gætu kynnt sér ítarefni.