„Ég hef ekkert út á það að setja að þessi skýrsla verði rædd þegar hún kemur fram en hún að sjálfsögðu stjórnar ekki dagskrá þingsins frekar en aðrar skýrslur sem kunna að birtast einhvern tímann í framtíðinni.“
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Árni Páll spurði ráðherrann hvort ekki væri eðlilegt að ræða við aðila vinnumarkaðarins um Evrópumálin og tækju skýrslu sem Alþjóðamálastofnun ynni að fyrir þá til umræðu á Alþingi ásamt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir stjórnvöld og tekin til umræðu í þinginu í gær. Forsætisráðherra sagði líkt og áður kemur fram að sjálfsagt væri að ræða skýrslu Alþjóðamálastofnunar sem væntanleg væri en hún hefði engin áhrif á það hvernig haldið yrði á málum á Alþingi. Hins vegar lýsti hann efasemdum um að sú skýrsla yrði hlutlæg.
„Við þekkjum í sjálfu sér skoðanir þeirra sem vinna að þeirri skýrslu og málflutning og jafnframt þá leiðsögn sem þeim var veitt við gerð þessarar skýrslu. En það breytir ekki því að það er allt í lagi að sjálfsögðu að ræða um hana og fjalla um þær ábendingar sem þar koma fram og rökræða um það. Og það kann vel að vera að fleiri skýrslur verði unnar um þessi mál og raunar líklegt að fleiri skýrslur verði unnar um Evrópumál á næstu misserum og árum og allt í lagi að taka þær allar til umfjöllunar hér í þinginu, hvort heldur sem er formlega eða óformlega.“
Ríkisstjórnin ræði við aðila vinnumarkaðarins
Árni Páll gagnrýndi Sigmund Davíð harðlega fyrir að vega að háskólasamfélaginu með orðum sínum. Hann sagði aðila vinnumarkaðarins hafa skýra stefnu í málinu sem væri að halda áfram viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. „Þeir telja mjög misráðið að aðildarumsóknin verði dregin til baka og telja að það gangi gegn hagsmunum Íslands. Ríkisstjórn Íslands ber að eiga opið samtal við aðila vinnumarkaðarins um þessa staðreynd.“
Sigmundur Davíð vísaði meðal annars til þess að einn af forsvarsmönnum Alþjóðastofnunar væri fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar sem hefði ekki farið leynt með skoðanir sínar. „En það að starfa í háskólaumhverfi þýðir ekki að menn séu heilagir og ekki megi rökræða við þá. Það hlýtur að vera þvert á móti tilgangurinn með því að menn setji fram og reyni að rökstyðja skoðanir, að það veki umræðu og þá einhver viðbrögð og ekkert nema gott um það að segja.“
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, tók í sama streng og Árni Páll. Sagðist hann þeirrar skoðunar að eitt meginhlutverk forsætisráðherra væri að fara á undan með góðu fordæmi og horfast í augu við það að ólíkar skoðanir væru í samfélaginu. Hann teldi Sigmund Davíð ekki hafa staðið sig í þeim efnum.