„Háttvirtur þingmaður lagðist hins vegar mjög lágt þegar þingmaðurinn tekur undir fullyrðingar og undarlegan fréttaflutning af ræðu minni hér í gær og athugasemdir einhverra bloggara úti í bæ um að utanríkisráðherra hafi kennt Evrópusambandinu um óöldina í Úkraínu. Það er einfaldlega rangt og ég hvet þingmanninn til að lesa þá ræðu og andsvörin sem ég flutti hér í gær við umræðuna.“
Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á Alþingi í dag og beindi þar orðum sínum til Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Ráðherrann sagði það viðurkennt og umtalað í erlendum fjölmiðlum að Evrópusambandið hafi hins vegar gert mistök í samskiptum sínum við stjórnvöld í Úkraínu með því að beita þau of miklum þrýstingi og gera of miklar kröfur til þeirra. Það hefði leitt til þess að úkraínskir ráðamenn, sem að hans mati ættu að svara til saka fyrir það sem þeir hefðu gert þjóð sinni, hefðu því miður snúið sér til Rússa.
„Það er ekki Evrópusambandinu að kenna að það sé verið að drepa þarna fólk í dag. Það hefur enginn sagt og mun ekki geta sagt. En Evrópusambandið hefði trúlega getað lagt meira á sig til þess að ná Úkraínu til sín. Og ég vona að það verði ekki sömu mistök með önnur austantjaldsríki gömul sem vilja gjarnan vinna með Evrópuþjóðunum,“ sagði ráðherrann og bætti við að hann hefði sagt í gær að það væri vont til þess að hugsa að sambandinu hefði ekki tekist að koma í veg fyrir átökin.