Ræddu um fríverslun í Japan

Sigurður Ingi á jarðhitaráðstefnunni í Tókyó, höfuðborg Japans.
Sigurður Ingi á jarðhitaráðstefnunni í Tókyó, höfuðborg Japans. Bloomberg

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ræddi við Yoshimasa Hayashi, sjávarútvegsráðherra Japans, um möguleika á fríverslunarsamningi Japans við EFTA-ríkin á ferð sinni í Japan.

Hayashi sagði að íslenskar sjávarafurðir væru þekktar í Japan fyrir gæði og að Japanar hefðu áhuga á fríverslun við Evrópuríki. Japan er annað helsta viðskiptaland Íslands utan Evrópu og eru sjávarafurðir um 80% útflutnings Íslands til Japans.

Þetta kemur fram í frétt á vef ráðuneytisins.

Þar segir að Sigurður Ingi hafi einnig ávarpað ráðstefnuna „Japan Iceland Geothermal Forum 2014“, þar sem fjallað var um jarðhitasamvinnu Íslendinga og Japana. Sigurður Ingi sagði mikla möguleika felast í samvinnu þjóðanna.

Ráðstefnan var haldin á vegum Íslensk-japanska verslunarráðsins í samstarfi við Bloomberg-fréttaveituna. Á meðal gesta voru japanskir þingmenn, sveitarstjórnarmenn, fulltrúar fjármálastofnana, orkufyrirtækja og fyrirtækja sem eru að þróa jarðvarmavirkjanir og vilja læra af reynslu og árangri Íslendinga.

Japönsk tækni og íslensk þekking lykilþættir

Ráðherra sagði að engin þjóð nýtti jarðhita á jafn víðtækan hátt og Íslendingar. Loftslagsbreytingar kölluðu á aukna nýtingu endurnýjanlegrar orku í stað jarðefnaeldsneytis og jarðhiti um allan heim væri mikilvæg og vannýtt auðlind. Japanir framleiddu meirihluta af hverflum fyrir jarðhitavirkjanir í heiminum og japönsk tækni og íslensk þekking væru víða lykilþættir í nýtingu jarðhita.

Miklir möguleikar væru á nýtingu íslenskrar þekkingar við jarðhitanýtingu í Japan en einnig væri hugsanleg samvinna ríkjanna í jarðhitavæðingu í þróunarríkjum.

Mikill þjóðhagslegur ávinningur

Þeir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Bolli Thoroddsen, formaður Verslunarráðsins og framkvæmdastjóri Takanwa, héldu meðal annarra erindi á ráðstefnunni.

Bjarni greindi frá því að hitaveita í Reykjavík hefði samtals sparað losun um 100 milljón tonna af koldíoxíði og að árið 2010 hefði þjóðhagslegur ávinningur af jarðvarma verið á bilinu 480 til 830 milljóna Bandaríkjadala.

Bolli fór yfir með hvaða hætti íslensk jarðvarmafyrirtæki gætu aðstoðað Japan við þróun jarðvarma, til dæmis á sviði yfirborðsrannsókna, jarðborana og nýtingu jarðvarma við gerð hitaveitna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka