„Þetta er bara skrípaleikur“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn hefur ekki áhuga á að halda áfram í þessum aðildarviðræðum og því er það í raun fáránlegt og furðulegt að fara fram á það að þessi ríkisstjórn eigi að halda áfram aðildarviðræðunum. Það væri langheiðarlegast ef þessi ríkisstjórn myndi hreinlega hætta þessum viðræðum því það er enginn áhugi hjá þessari ríkisstjórn að halda þeim áfram. Það að vera í einhverju millibilsástandi er ekki gott.“

Þetta sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag í umræðum um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið. Gagnrýndi hún að verið væri að eyða tíma í að ræða um skýrsluna þegar honum væri betur varið í umræður um brýnni mál. „Hvers konar skrípaleikur er þetta?“ Nefndi hún í því sambandi meðal annars skuldamál heimilanna sem ekki hefðu verið afgreidd og kjör ýmissa starfsstétta. Þá velti hún upp þeirri spurningu hvort farið yrði eftir því jafnvel þótt haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðnanna við Evrópusambandið í ljósi þess að ekki hefði verið virt niðurstaða þjóðaratkvæðisins um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

„Ég vil því leggja til, þrátt fyrir að ég sé hlynnt því að við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu, að við hættum þessum skrípaleik. Þetta er bara skrípaleikur. Af hverju er ekki hægt að fá hrein og klár svör frá ríkisstjórninni um það hvað hún ætlar að gera? Það eru engin hrein og klár svör hér. Þannig að við erum í einhverju limbói, sem er eitthvert ömurlegasta ástand sem hægt er að vera í, að fjalla um eitthvað sem er alveg augljóst að ríkisstjórnin ætlar ekki að gera.“ Hvatti hún ríkisstjórnina til þess að gefa afdráttarlaus svör um það hvað hún ætlaðist fyrir í framhaldinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert