„Þetta var illa undirbúinn leiðangur af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnarflokka og ég hef margoft sagt það að væri ég aðildarsinni – væri ég þeirrar skoðunar að við ættum erindi inn í Evrópusambandið, þá væri ég ansi svekkt út í fyrrverandi ráðamenn þessarar þjóðar um það með hvaða hætti haldið var á málinu.“
Þetta sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Ekki hefði verið sátt á milli ríkisstjórnarflokkanna fyrrverandi um það að sækja um inngöngu í sambandið og fara þar inn. Farið hefði verið gegn því meginsjónarmiði að sækja ekki um nema vilji væri til inngöngu. Þá hefði fyrri ríkisstjórn ekki verið með það á hreinu hvernig hún ætlaði að halda utan um málið.
„Það kemur fram hérna í skýrslunni að almennt er gengið út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild. Þessu hefur verið mótmælt af þeim sem hafa borið uppi þessa umsókn allt síðasta kjörtímabil. Það er þannig, það er staðreynd að ef þjóð sækir um aðild að Evrópusambandinu þá er það vegna þess að umsóknarríkið hefur vilja til þess að ganga inn í sambandið,“ sagði hún ennfremur. Jafnframt kæmi fram í skýrslunni að reynsla annarra þjóða sýndi að ekki hafi fengist varanlegar undanþágur frá stefnu Evrópusambandsins.
„Það var fullyrt hér þegar við vorum að taka til meðferðar málið um aðildarumsókn að við fengjum alveg örugglega undanþágur. Við værum bara að fara að kíkja í pakkann, sem er auðvitað andstætt því sem aðrar þjóðir hafa gert og Evrópusambandið sjálft trúir að þjóðir séu að gera sem sækja um, og jafnframt var það fullyrt að þetta myndi taka stuttan tíma. Jafnvel bara 18 mánuði. Ekkert af þessu stóðst.“