Hæstiréttur hefur hafnað kröfu tveggja einstaklinga sem gerðu kröfu um að sýslumaðurinn í Reykjavík afmáði úr þinglýsingabók 126 veðskuldabréf af fasteignunum hjúkrunarheimilisins Eirar í Reykjavík og í Mosfellsbæ. Þetta er sama niðurstaða og varð í héraðsdómi.
Þeir sem höfðuðu málið eiga fjárkröfur á Eir. Í báðum tilvikum lögðu íbúar öryggisíbúða á Eir fram 100% framlag þegar þeir fluttu inn í íbúðirnar. Eftir að þeir skiluðu íbúðunum óskuðu þeir eftir að fá framlagið greitt í samræmi við samning sem íbúarnir gerðu á sínum tíma. Eir varð ekki við þeirri beiðni, enda var Eir þá komin í greiðslustöðvun.
Íbúarnir kröfðust þess að sýslumaður afmáði veðskuldabréf á öryggisíbúðir Eirar við Hlaðhamra í Mosfellsbæ og við Fróðengi í Grafarvogi úr þinglýsingarbók þar sem ekki hafi verið sótt um leyfi til sýslumanns til veðsetningar. Íbúðalánasjóður krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi þar sem íbúarnir hefðu ekki lögvarða hagsmuni í málinu.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu verið gerð við veðsetninguna. Kærendur hefðu hins vegar ekki lögvarða hagsmuni af því að krefjast leiðréttingar mistaka sem urðu við þinglýsinguna. Niðurstaða sýslumanns að hafna beiðninni var því staðfest.