„Eins og ég sé búin að fá drenginn minn aftur“

Veturinn 2013, komst hún að því að drengurinn var búinn …
Veturinn 2013, komst hún að því að drengurinn var búinn að vera í mikilli kannabisneyslu. mbl.is

Móðir unglingspilts sem var í fíkniefnaneyslu og var ógnandi í hegðun á heimili sínu, var buguð á sál og líkama þegar hún hringdi í barnaverndarnefnd til óska eftir aðstoð. Meðan á samtalinu stóð grét hún svo mikið að hún telur að líklega hafi starfsmaður nefndarinnar bara skilið orð á stangli.

Aðdragandinn að símtalinu var ekki mjög langur. Hún rekur upphafið til breytinga á fjölskylduhögum fyrir nokkrum árum en hann tók þeim mjög illa. Í kjölfarið fór hann til skólasálfræðings og sálfræðings utan skólans og sú meðferð virtist í sjálfu sér ganga vel.

Sumarið 2012 breyttist hegðun hans mjög til hins verra, hann varð ógnandi og uppstökkur og fór að skemma hluti á heimilinu í skapofsaköstum. Drengurinn hafði verið góður námsmaður en einkunnum hrakaði hratt, vinahópurinn breyttist. Hann fór að stelast út á nóttunni. Þá leitaði hún til barna- og unglingageðdeildar þar sem þau fengu þjónustu á göngudeild í um hálft ár, þangað til drengurinn neitaði að fara þangað aftur.

Um svipað leyti, veturinn 2013, komst hún að því að drengurinn var búinn að vera í mikilli kannabisneyslu. Þá ákvað hún að hringja í barnaverndarnefndina en hún hafði hikað við það áður. „Ég var skíthrædd við þetta orð: barnaverndarnefnd,“ segir hún. Margar grýlusögur hafi verið í gangi um úrræði barnaverndar úti á landi, s.s. um Breiðavíkurheimilið og slíkt. Hún hafði áhyggjur af því að þótt drengurinn yrði ekki vistaður utan heimilis strax, gæti komið að því. Þar að auki voru ekki allir sem komu að málinu sammála um hvort blanda ætti barnaverndarnefnd í málið.

„En ég var rosalega heppin. Biðlistinn í MST-meðferðina var kannski þrjár til fjórar vikur. Og MST er frábær þjónusta. Ég mæli 100% með henni.“

Vissa um bakland skipti miklu

Þerapistinn hjá Barnaverndarstofu hafi hitt hana vikulega og bent henni á aðferðir til að takast á við vandann. Ef eitthvað gekk ekki voru aðrar aðferðir reyndar. „Og ég held að ég hafi bara verið helvíti dugleg. Ég nýtti mér allar aðferðirnar,“ segir hún.

Miklu hafi skipt að hafa aðgang að þerapistanum milli 9 og 20 á daginn og geta hringt í bakvakt á kvöldin og um helgar. Hún hafi reyndar aldrei þurft að nýta sér bakvaktarsímann. „En það styrkti mig að vita af þessu baklandi.“

Þau hófu MST-meðferðina veturinn 2013 og hún stóð í um níu mánuði. Liður í meðferðinni var stíft eftirlit með því hvort drengurinn hefði aftur hafið kannabis-neyslu og það eftirlit stendur raunar enn.

Nú er staðan sú að drengurinn hefur verið laus við fíkniefni frá því hann lauk meðferðinni. Hann stundar námið í skólanum, tekur þátt í félagslífinu og á kærustu. Framtíð hans er björt og í raun ekkert sem á að koma í veg fyrir að líf hans falli í eðlilegar skorður. Hún fylgist samt enn vel með honum.

Hún hvetur foreldra til að leita sér hjálpar sem fyrst, en láta vandann ekki vaxa sér yfir höfuð. Hún bendir á að hún hafi ekki komist að því að drengurinn væri í kannabis-neyslu fyrr en ári eftir að hún hófst.

Þar sem drengurinn stundaði varla námið í grunnskóla frá því hann var í 8. bekk þarf hann að vinna töluvert upp og hefur fallið í einstaka fögum. Svoleiðis smámunir skipta litlu máli. „Mér finnst eins og ég sé búin að fá drenginn minn aftur,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert