Lögun kynfæra leið til farsældar?

mbl.is/G.Rúnar

„Byggir farsælt líf á rétt sköpuðum kynfærum? Ef einstaklingur lítur ekki út fyrir að geta stundað dæmigert gagnkynhneigt kynlíf, má þá álykta að það  líf sé ófullnægjandi?“ Svona spurði Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands, á hádegisverðarfundi í dag.

Sólveig Anna flutti fyrirlestur sem bar heitið „Þriðja kynið – í trúarbrögðum og menningu“ og fjallaði hún þar um intersex einstaklinga. Það eru meðal annars þeir sem hafa æxlunarfæri sem eiga það sameiginlegt að passa ekki inn í dæmigerðar skilgreiningar á karlkyns og kvenkyns æxlunarfærum.

Raunar bætti hún við að matsatriði væri hvað flokkað sé sem intersex og hvað ekki. Þannig geti einhver haft kvenkynskynfæri en æxlunarfæri karlmanns, eða að kynfærin séu mitt á milli dæmigerðra karl- og kvenkynskynfæra, t.d. stúlkur með óvenju stóran sníp eða án leggangaops og karlar með óvenjulítinn lim eða klofinn pung sem líkist þá skapabörmum.

Þetta „ástand“ komi stundum fram við fæðingu en ekki ávallt. Í öðrum tilvikum kemur það ekki fram fyrr en á kynþroskaskeiði, jafnvel ekki fyrr en farið er að leita eftir ástæðum ófrjósemi. Þá séu dæmi um að það komi ekki fram fyrr en við krufningu.

Bókstafurinn X í stað M og F

Þann 1. nóvember síðastliðinn varð Þýskaland fyrst evrópskra ríkja til að setja lög um svonefnt þriðja kyn. Lögin eru talin taka til allt að 100 þúsund einstaklinga sem ekki hafa verið flokkaðir með ótvíræðum hætti, þ.e. sem karlmenn eða konur. Með lögunum er heimilt að láta ógert að flokka kynferði barns við fæðinga, ef læknar telja óljóst um hvort kynið sé að ræða. Er þá bókstafurinn X notaður í stað þess að börnin séu flokkuð sem M eða F, þ.e. karlkyns eða kvenkyns.

Sá sem merktur er með X getur svo sjálfur valið þegar hann hefur aldur til og þroska hvaða kyni hann vill til heyra. Sólveig segir það hins vegar hafa verið gagnrýnt að þýsk stjórnvöld hafi ekki skýrt það nægilega vel hvort þriðja kynið gildi út lífið eða hvort intersex fólki verði gert að velja annað kyn.

Þrátt fyrir gagnrýnina hefur nýju lögunum einnig verið fagnað, þar sé um að ræða rétt til að velja þriðja kynið og það sé fyrsta skrefið í átt að sýnileika þessa hóps í Evrópu og sjálfræði hópsins.

Mæta fordómum og upplifa skömm

Sólveig sagði að intersex snúist hvorki um kynhneigð né kynvitund, heldur fyrst og fremst um líkamann og hvað gera megi þegar hann er ekki dæmigerður útlits. En þó svo margt skilji að til dæmis hinsegin fólk og intersex fólk þá deila þessir hópar sömu reynslunni. „Það er reynslunni af því að verða fyrir margvíslegum fordómum og að upplifa skömm.“

Hún sagði að helsta baráttumál intersex samtaka snúi að mannréttindum, auknu sjálfræði og svo að heilbrigðiskerfið haldi að sér höndum og hætti bráðaskurðaðgerðum á nýfæddum börnum. „Vandamálið er ekki hvort kynið er betra að breyta barni heldur sjálfræði þeirra sem málið varðar og því að hrista ber upp í gagnstæðu kynjahugmyndafræðinni sem er hluti af hinu gagnkynhneigða regluverki.“ Því sem þurfi að breyta verði ekki gert með skurðhníf heldur nýjum hugmyndum sem ráðast gegn regluverki gagnstæðu hugmyndarfæðarinnar.

Fyrstu skrefin tekin utan Evrópu

Sólveig nefndi einnig að gjarnan væri litið svo á að Norðurlandaþjóðirnar standi framarlega í flokki þegar komi að baráttu hinsegin fólks. Það eigi hins vegar síðu um þegar rætt er um þriðja kynið. Mestan áhuga megi merkja hjá Finnum og varla sé hægt að beintengja hann áhuga stöðu hinsegin fólks í Finnlandi, en það er eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur lögleitt hjónaband samkynhneigðra.

Þá hafi fyrstu skrefin ekki verið tekin í Evrópu eða Norður-Ameríku þegar kemur að þriðja kyninu heldur í mun fjarlægri heimshlutum. Þannig hafi Þjóðverjar fetað í fótspor Indlands, Ástralíu, Pakistan, Nýja-Sjálands, Suður-Afríku og Nepal.

Þegar kom að umræðu um hvort ástæða sé til að Ísland taki upp sambærileg lög og Þjóðverjar sagði hún sína aðalályktun að rétt sé að ræða þessi mál, gagnstæða kynjalíkanið og ávinning þeirra laga sem sett hafa verið í Þýskalandi. „Ég tel að ávinningurinn verði heilmikill en megintilgangur laganna er að stöðva aðgerðir á börnum. Þar höfðu menn eina viku til að ákveða hvort kynið barn [intersex barn] ætti að tilheyra.“

Hún sagði það staðreynd að fjöldi einstaklinga fæðist sem ekki sé auðvelt að skilgreina. Því sé spurning hvort nauðsynlegt sé að flokka eftir kyni og þá hvort þriðja kynið sé möguleiki, hvort það eigi að vera biðflokkur eða nýtingaflokkur. Hún spurði hvers vegna menning okkar sé með þeim hætti að nauðsynlegt þyki að kíkja ofan í nærbuxur hvors annars, þegar kyngervi og kynvitund byggi ekki á útliti kynfæranna. „Að mínu mati er tímabært að hrista upp í gagnstæða kynjalíkaninu og vinna að því að gera samfélag okkar hæfara til að takast á við og viðurkenna margbreytileika á sviði kynja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert