Borgarráð hefur staðfest breytingu deiliskipulags fyrir lóðina við Tryggvagötu 13 en þar stendur til að reisa sex hæða byggingu. Í breytingunni felst að horfið er frá fyrirhugaðri notkun hússins sem þjónustu, skrifstofu og gistihúss.
Í húsinu mun verða þjónusta á jarðhæð auk þess sem Borgarbókasafn Reykjavíkur fær stærra húsnæði, að því er fram kemur í frétt frá Reykjavíkurborg.
Húsið verður í samræmi við byggingar sem fyrir er á reitnum og mun rúma aukna starfsemi og þjónustu Borgarbókasafnsins auk þess sem aðgengismál verða stórbætt í safninu. Skipulagsyfirvöld telja að að stærð og hlutföll viðbyggingarinnar bjóði upp á spennandi arkitektúr með útsýni yfir höfnina og að mikil prýði verði af torgi sem verður á reitnum Tryggvagötumegin.
Í húsinu verður verslunar- og þjónusturými á fyrstu hæð en skrifstofur og íbúðir á annarri til sjöttu hæð.
Tillagan var auglýst frá 23. desember 2013 til 3. febrúar 2014 en að auki haldinn kynningarfundur þar sem 38 eigendum fasteigna í nálægð við reitinn var boðið að koma. Tillagan var að auki auglýst á vef Reykjavíkurborgar og til sýnis í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12 -14 á meðan auglýsingu stóð.
Ein athugasemd við skipulagið barst frá Íbúasamtökum Vesturbæjar.