Flugi WOW air frá Keflavíkurflugvelli til Berlínar hefur verið seinkað vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, líkt og segir á heimasíðu félagsins. Vélin átti að fara í loftið kl. 06:35 í morgun. Nýjar upplýsingar eiga að liggja fyrir kl. 14, en eins og staðan er nú fer hún ekki í loftið fyrr en kl. 18 í kvöld.
Fram kemur á vef WOW að af sömu sökum megi búast við seinkun á flugi WOW frá Berlín til Íslands sem og flugi til og frá Kaupmannahöfn. Vélin til Kaupmannahafnar átti að fara í loftið kl. 15:40 en nú stendur til að hún fari ekki loftið fyrr en kl. 20:30 í kvöld.
Annað flug WOW er á áætlun.
Ekki hefur náðst í upplýsingafulltrúa WOW vegna málsins, en gera má ráð fyrir að seinkunina megi rekja til bilunar.
Nánari upplýsingar um komur og brottfarir á vef Keflavíkurflugvallar.