Okjökull er að hverfa

Okjökull árið 1999.
Okjökull árið 1999. Mynd/Loftmyndir

Jökullinn Ok hefur munað fífil sinn fegurri og hefur á síðustu árum hopað mikið. Jöklafræðingar hafa jafnvel gengið svo langt að segja að mögulega uppfylli hann ekki lengur þau viðmið að hægt sé að nefna hann jökul. Þær myndir sem hér fylgja voru teknar af jöklinum árin 1999 og 2008 af fyrirtækinu Loftmyndum, en síðan þá hefur hann skroppið enn meira saman.

Í janúar fjallaði Morgunblaðið um jökulinn og örlög hans og var þá haft eftir Oddi Sigurðssyni jöklafræðingi að farið yrði í sumar og gerðar mælingar á honum, en allt virðist stefna í að hann sé orðinn hreyfingarlaus dauðís, en þar með fellur hann ekki lengur undir skilgreininguna um jökul. Almennt er talað um jökla ef þeir hníga eða skríða fram undan eigin fargi og til þess þurfa þeir að vera 40-50 metra þykkir. Þessu er væntanlega ekki lengur svona farið með Ok.

Árið 1890 var Okjökull 16 ferkílómetrar að flatarmáli, en árið 2012 mældist jökullinn aðeins 0,7 ferkílómetrar eftir að hafa verið 4 ferkílómetrar um aldamótin.

Fyrirtækið Loftmyndir hefur síðustu ár tekið myndir úr lofti af öllu landinu og uppfærir þær á eins til átta ára fresti að meðaltali. Hægt er að nota þessar myndir til að bera saman þróun yfir áraraðir, eins og gert er á meðfylgjandi mynd. Hægt er að færa renninginn í miðjunni fram og til baka og sést þá hvaða breyting hefur átt sér stað. Myndirnar eru báðar teknar á svipuðum tíma yfir sumar.

Sjáðu hér breytingar á Jökulsá á Dal eftir Kárahnjúkavirkjun, hér breytingar á Akureyri í fimmtán ár, hér breytingar á Kársnesi í Kópavogi í sextán ár og hér miklar landslagsbreytingar við íslenska jökla.

Okjökull árið 1999 og 2008. Jökullinn hefur mikið hopað frá …
Okjökull árið 1999 og 2008. Jökullinn hefur mikið hopað frá aldamótum, en óvíst er að hann teljist til jökuls í dag. Mynd/Loftmyndir
Okjökull árið 1999 og 2008. Jökullinn hefur mikið hopað frá …
Okjökull árið 1999 og 2008. Jökullinn hefur mikið hopað frá aldamótum, en óvíst er að hann teljist til jökuls í dag. Mynd/Loftmyndir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka