Enn er mótmælt fyrir framan Alþingishúsið en að sögn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru um 3.500 manns á svæðinu þegar mest var.
Að sögn blaðamanns Morgunblaðsins, sem er á staðnum, fara mótmælin mjög friðsamlega og rólega fram. Þó er ekki lengur stöðugur straumur að Austurvelli eins og var um tíma.
Mótmælendur við Alþingishúsið berja enn á öryggisgirðingu sem lögreglan reisti og af því skapast nokkur hávaði.
Mótmælt er þeirri ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Yfir 4.500 manns höfðu boðað komu sína á mótmælin.
Hér má sjá beina útsendingu frá Austurvelli úr vefmyndavél Mílu.
Frétt mbl.is: Fjölmenni á Austurvelli