„Keppni þar sem áherslan er á að missa sem mestan þunga á sem skemmstum tíma samrýmist ekki faglegum áherslum,“ segir Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og formaður Samtaka um líkamsvirðingu.
„Það er talað um að fyrst og fremst sé verið að hjálpa fólki til betra lífs og betri heilsu, en þyngdartapið er þó látið ráða úrslitum. Fólk ætti frekar að horfa til annarra þátta, líkt og betri heilsufarslegra mælinga og betri líðanar, en það væri eflaust ekki mjög áhugavert sjónvarpsefni. Það telst líklega ekki mjög áhugavert að heyra einhvern hrópa: „Farðu vel með þig!““ segir Sigrún.
Sjö félög sendu í gær frá sér yfirlýsingu þar sem lögð var áhersla á að þættirnir hefðu aldrei hlotið vottun íslensks fagfólks, þótt því virðist þvert á móti haldið fram í kynningarefni um þáttinn og segi meðal annars á heimasíðu Skjásins.
„Verið er að auglýsa þættina líkt og þeir hafi fengið einhvern gæðastimpil frá fagfólki, en við viljum taka fram að það á ekki við um fagfólk á Íslandi,“ segir Sigrún.
Hún tekur fram að verið sé að gagnrýna það sem komi fram í þáttunum. „Við erum alls ekki að gagnrýna keppendur eða það sem fer fram á bak við tjöldin. Það er verið að búa til ákveðið sjónvarp þar sem við gagnrýnum ákveðin atriði, þar sem því er haldið fram að fagfólk leggi blessun sína yfir það. Flestir hljóta að átta sig á því að við myndum ekki sætta okkur við þannig framkomu frá sálfræðingi eða lækni, þar sem hann segði skjólstæðingi að hætta að væla og drulla sér í ræktina. Svona myndi heilbrigðisstarfsfólk ekki hegða sér, og ef það gerði það teldist það brot á siðareglum og brot á lögum sem kveða á um að skjólstæðingum skuli sýna virðingu,“ segir hún.