Öryggisgirðing umhverfis Alþingishúsið

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður með viðbúnað við Alþingishúsið en boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli klukkan þrjú í dag, þegar þingfundur á Alþingi hefst. Mótmælin voru boðuð vegna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.

Rétt tæplega 4.300 manns hafa boðað komu sína á Austurvöll til að mótmæla fyrirætlan stjórnvalda í Evrópumálum. Á facebooksíðu mótmælanna segir að þess sé krafist að umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið verði ekki dregin til baka nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem skuli halda ekki síðar en 31. júlí 2014. „Við förum ekki heim fyrr en á okkur er hlustað!“ segir ennfremur.

Þá hafa meira en tólf þúsund skrifað undir áskorun á Alþingi um að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eins og hefðbundið er þegar boðað er til mótmæla við Alþingishúsið er lögregla höfuðborgarsvæðisins með öryggisgirðingu sem reist er umhverfis húsið. Er það til að hún geti brugðist hratt við óvæntum atvikum sem upp geta komið í mótmælum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert