Vilja þjóðaratkvæði um framhald viðræðna

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.

Þingmenn Pírata hafa útbýtt á Alþingi þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þeir óska eftir meðflutningsmönnum meðal þingmanna úr öðrum flokkum.

Um tveir af hverjum þremur kosningabærra Íslendinga vilja að haldin verði slík þjóðaratkvæðagreiðsla, segir í tilkynningu frá Pírötum.

„Þeir þingmenn sem styðja vilja mikils meirihluta kjósenda í þessu máli geta sýnt það í verki með því að vera meðflutningsmenn á tillögunni. Þið látið okkur vita fyrir klukkan 15:00 í dag.“

Vilja Píratar að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum 31. maí næstkomandi.

Samkvæmt tillögunni verður eftirfarandi spurning borin upp:

Skulu stjórnvöld halda áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið?

*    Já, ég vil að stjórnvöld haldi áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

*    Nei, ég vil ekki að stjórnvöld haldi áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Í greinargerð með tillögunni segir:

Um tveir af hverjum þremur kosningabærra Íslendinga vilja að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Eins og fram kemur í nýlegri könnunin Maskínu dagana 27. september til 10. október 2013. Ef halda á slíka þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitastjórnarkosningum 31. maí í ár þarf Alþingi að samþykkja þingsályktun sem þessa fyrir 28. febrúar.

Svo kjósendur viti hvar valdið og ábyrgðin liggur í þessu máli þá veltur framganga þess fyrst á þingforseta, Einari K. Guðfinnssyni, að gefa málinu forgang í dagskrá þingsins og Birgi Ármannssyni að gera slíkt hið sama í utanríkismálanefnd. Að lokum er það svo meirihluta utanríkismálanefndar og Alþingis að kjósa með þessari þingsályktun svo kjósendur fái að segja hug sinn í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Tekið skal skýrt fram að flutningsmenn hefðu óskað að leggja fram þingályktun um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu en lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna bjóða ekki upp á það. Í 1. gr. þeirra segir skýrt: „Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ráðgefandi.“ Málum væri öðruvísi háttað ef frumvarp Stjórnlagaráðs væri orðið að stjórnskipunarlögum. Í 66. gr. þess segir: „Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.“

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert