Öllum enn neitað um miða á Timberlake

Justin Timberlake

Mikil ásókn er í miða á tónleika bandaríska tónlistarmannsins Justin Timberlake sem fram fara hér á landi í ágúst, og það þrátt fyrir að forsala hefjist ekki fyrr en 4. mars. Ísleifur B. Þórhallsson, framkvæmdastjóri viðburðasviðs Senu, segir að öllum óskum um miða sé neitað, og engu skipti hvaða fyrirtæki á í hlut.

Sá kvittur komst á kreik að búið væri að selja alla átta hundruð miðana í Stúku A, sem er dýrasta svæðið. Ísleifur segir þetta hins vegar alrangt. Hann telur að orðrómurinn sé tilkominn vegna þeirrar ásóknar sem er í miðana, en mörg fyrirtæki hafi þegar reynt að gera fjöldakaup á miðum. Þau fái hins vegar öll neitun og því eflaust einhverjir sem telji að miðarnir séu hreinlega uppseldir.

Ísleifur tekur skýrt fram að forsala hefjist 4. mars næstkomandi hjá aðdáendaklúbbi Justins, The Tennessee Kids, og daginn eftir hjá bakhjörlum tónleikanna, Vodafone og WOW Air. Í forsölu verður leyfilegt að selja um það bil helming allra miða.

Þegar almenn sala hefst svo 6. mars verða því í boði að minnsta kosti 50% miða í öll svæði.

Hér má lesa um miðasöluna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka