Byrjað að selja miða á Timberlake

Justin Timberlake
Justin Timberlake AFP

Samkvæmt greiðslukvittun sem mbl hefur undir höndum hafa 47 miðar á tónleika bandaríska tónlistarmannsins Justins Timberlakes sem fram fara hér á landi í ágúst þegar verið seldir í forsölu, en forsala miða á að hefjast hinn 4. mars næstkomandi.

„Við pössum upp á að nóg verði til í forsölu og almennri sölu,“ segir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri viðburðasviðs Senu. Hann segir lítinn kvóta af heildarmiðum hafa verið seldan til fyrirtækja sem kaupi mikið magn í einu, en var þó ekki með tölur á reiðum höndum yfir hversu margir miðar hefðu þegar verið seldir.

Hann segir að fleiri miðar í stúku verði ekki seldir áður en almenn forsala hefst og segist hafa átt við slíka miða, þegar hann sagði að öllum óskum um miða væri neitað, í samtali við mbl í gær. Þetta sé gert til þess að tryggja að enn verði til miðar í stúku þegar almenn forsala hefst. Enn sé þó verið að selja miða í stæði, þar sem slíkir miðar eru mun fleiri.

„Það er alltaf búið að klípa eitthvað af miðunum áður en sala hefst, það er óhjákvæmilegt,“ segir Ísleifur.

Forsala hefst hinn 4. mars hjá aðdáendaklúbbi Justins, The Tennessee Kids, og daginn eftir hjá bakhjörlum tónleikanna, Vodafone og WOW Air. Í forsölu verður leyfilegt að selja um það bil helming allra miða. Þegar almenn sala hefst svo 6. mars eiga um 50% miða í öll svæði að vera í boði.

Frétt mbl.is: Öllum enn neitað um miða á Timberlake

Kvittun fyrir kaupum á 47 miðum í forsölu á Justin …
Kvittun fyrir kaupum á 47 miðum í forsölu á Justin Timberlake tónleikana.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert