Lokið er talningu atkvæða í atkvæðagreiðslu félagsmanna Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum um boðun verkfalls í ríkisreknum framhaldsskólum frá og með 17. mars næstkomandi hafi samkomulag um nýja kjarasamninga þá ekki tekist. Niðurstaðan er sem hér segir:
1.541 var á kjörskrá og greiddu 86,9% atkvæði, eða 1.339 manns. Já sögðu 1.173, eða 87,6%, og nei sögðu 134, eða 10,0%. Auðir seðlar og ógildir voru 32 eða 2,4%
Mikill meirihluti félagsmanna Kennarasambands Íslands í ríkisreknum framhaldsskólum er því samþykkur verkfallsboðun, en það eru kennarar, námsráðgjafar og skólastjórnendur að skólameisturum frátöldum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kennarasambandi Íslands.
„Þetta er afgerandi niðurstaða, tæplega 88% sem segja já og þátttakan er mjög góð. Við munum leggja mikinn kraft í viðræðurnar á næstunni,“ sagði Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnanda í framhaldsskólum, í samtali við mbl.is eftir að niðurstaðan lá fyrir.
Kennsla fer fram með óbreyttum hætti fram að verkfalli, en þá verður kennsla lögð niður, hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma. Verkfallið tekur til ríkisrekinna framhaldsskóla. Að sögn Ólafs tekur verkfallið til kennara sem kenna í ríkisreknum framhaldsskólum og eru í 25% starfi eða meira. Kennarar, námsráðgjafar og skólastjórnaendur Verslunarskóla Íslands, Tækniskólans, Menntaskóla Borgarfjarðar og Fjölmennt hafa ekki greitt atkvæði um hvort gripið verði til verkfalls.
Verkfallið nær ekki til kennara sem eru í verktakavinnu og eru ekki í Kennarasambandi Íslands, en það eru aðallega kennarar sem kenna verklegar greinar. Þessir kennarar mega kenna, svo framarlega sem starf þeirra er ekki háð félagsmönnum Kennarasambandsins.
Ólafur útskýrir að í sumum tilvikum eru þessir kennarar, sem vinna verktakavinnu í framhaldsskólunum, til að mynda háðir því að aðrir, sem eru félagsmenn Kennarasambands Íslands, opni húsnæði fyrir þá eða aðrir kennarar séu viðstaddir kennsluna. „Dragist verkfall á langinn hætta nemendur að mæta, eða það er allavega reynslan frá síðustu árum,“ segir Ólafur.
Aðspurður um gang viðræðnanna segir hann að enn beri mikið á milli.
Ingibjörg Guðmundsdóttur, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, sagði í samtali við mbl.is fyrr í þessum mánuði að ekki væri hægt að segja til hvaða úrræða yrði hugsanlega gripið kæmi til verkfalls. Komið hafi til nokkurra verkfalla á þeim tíma sem hún hafi starfað innan framhaldsskólanna og ekki hafi alltaf verið gripið til sömu aðgerða til að vinda ofan af þeim.
Í frétt á vef Flensborgarskólans í Hafnarfirði segir meðal annars: „Ef til verkfalls kemur þá lýkur því með samningum m.a. um hvernig eigi að ljúka önninni. Skólinn mun kappkosta að ljúka önninni eins vel og við verður komið og samningar munu leyfa. Þá mun skipta máli að nemendur ljúki áföngum sínum. Þeir sem það gera munu á næstu önn hafa forgang fram yfir þá sem ekki gera slíkt, eins og raunin er nú þegar.“