Þrátt fyrir að Landeyjahöfn hafi verið gífurlega mikil framkvæmd á mælikvarða mannanna, þá er hún aðeins lítið brot af þeim miklu breytingum sem verða á strandlengjunni í nágrenninu og hvað þá þegar hugsað er til landslagsbreytinga almennt. Á meðfylgjandi myndum má sjá þá breytingu sem Markarfljótið og straumar við ströndina hafa á umhverfið.
Fyrri myndin er tekin árið 2000, en árið 2011, þegar seinni myndin er tekin, er Landeyjahöfn komin til skjalanna. Á þessum tíma hafa framburður Markarfljótsins og hafið ekki haft minni áhrif en framkvæmdirnar. Ósinn er gjörbreyttur og strandlínan hefur færst til.
Fyrirtækið Loftmyndir hefur síðustu ár tekið myndir úr lofti af öllu landinu og uppfærir þær á eins til átta ára fresti að meðaltali. Hægt er að nota þessar myndir til að bera saman þróun yfir áraraðir, eins og gert er á meðfylgjandi mynd. Hægt er að færa renninginn í miðjunni fram og til baka og sést þá hvaða breyting hefur átt sér stað. Myndirnar eru báðar teknar á svipuðum tíma yfir sumar.
Fleiri svipaðar samanburðamyndir má sjá í knippinu hér að neðan.