Lögreglumenn í átökum í Hraunbæ

„Þeir fengu minniháttar pústra og sár,“ segir aðstoðaryfirlögregluþjónn um áverka sem tveir lögreglumenn hlutu er þeir aðstoðuðu við handtöku í Hraunbæ í gær, en það kom til snarpra átaka. Maðurinn sem var handtekinn var grunaður um að aka bíl undir áhrifum vímuefna og án ökuréttinda. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu. Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá þegar lögreglan handtekur manninn.

Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is, að lögreglumennirnir séu að jafna sig og að þeir hafi ekki hlotið alvarlega áverka, en þeir leituðu á slysadeild í kjölfar atburðarins.

Blóðsýni tekin vegna hugsanlegs smits

„Í svona tilvikum eins og þessu þar sem kemur til átaka og menn blóðgast og annað - um er að ræða aðila sem er hugsanlega grunaður um að vera smitaður af einhverri óværu - þá fara menn til skoðunar upp á slysadeild og þá eru tekin, ef ástæða þykir, blóðsýni sem send eru til rannsóknar; hvort það hafi borist eitthvert smit,“ segir Árni og bætir að það sé gert til að gæta fyllasta öryggis. Málið sé nú í hefðbundnu ferli.

„Við reynum að tryggja öryggi okkar starfsfólks eins og hægt er,“ segir Árni ennfremur.

Brást illa við handtökunni

Aðspurður segir Árni að handtaka um hábjartan dag í miðju íbúahverfi veki vissulega athygli enda almennir borgarar flestir óvanir að verða vitni að slíku.

„Menn eru snarpir margir og það kemur til harðra átaka, [...] þetta er bara hluti af þessu daglega lífi lögreglumanna,“ segir Árni.

Hann segir ennfremur, að tveir lögreglumenn hafi kannast við bifreiðina sem þeir stöðvuðu til að kanna ástand ökumannsins. Þegar grunur vaknaði að hann væri undir áhrifum fíkniefna við akstur var maðurinn handtekinn og kallað var eftir aðstoð fleiri lögreglumanna, bæði við handtökuna og til að flytja manninn á brott. Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá sjö lögreglumenn, bæði einkennis- og óeinkennisklædda. 

Sjónarvottur segir í samtali við mbl.is, að maðurinn sem var handtekinn hafi greinilega verið undir áhrifum lyfja eða vímuefna. Hann hafi m.a. öskrað hátt og brugðist illa við handtökunni sem leiddi til átaka.

Maðurinn var vistaður í fangaklefa og verður rætt við hann í dag.  „Hann er réttindalaus og grunaður um að vera undir áhrifum vímuefna og á vímuefnaskilorði,“ segir Árni varðandi meint brot mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert