Karlmaður sem ákærður er fyrir tvær hættulegar líkamsárásir, framdar í janúar og júlí í fyrra, gaf ekki upp afstöðu sína til sakarefnisins við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hann óskaði eftir fresti til að kynna sér gögn málsins. Maðurinn var nýverið dæmdur fyrir aðild að Stokkseyrarmálinu svonefnda.
Maðurinn, Gísli Þór Gunnarsson, hlaut tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir aðild sína að Stokkseyrarmálinu. Atvik í því máli gerðust 30. júní og 1. júlí 2013 en í málinu sem þingfest var í dag er Gísla Þór gefið að sök að hafa ráðist á karlmann í Breiðholti 2. júlí sama ár og veitt honum tíu sentímetra langt skurðsár á framhandlegg.
Einnig er Gísli ásamt karlmanni um þrítugt og konu um tvítugt gefið að sök að hafa sett inn auglýsingu um kynlífsþjónustu í dagblað og hitt karlmann sem svaraði auglýsingunni. Í stað þess að veita þá þjónustu sem auglýst var stal konan fjörutíu þúsund krónum af vændiskaupandanum. Gísli og hinn maðurinn réðust í kjölfarið á manninn og eru í ákæru sagðir hafa ætlað að ræna hann.
Í ákæru segir einnig að Gísli hafi skorið manninn þannig að hann hlaut tvo skurði, annars vegar frá vinstra kjálkabarði og skáhalt niður á við í átt að hálsæðum og hins vegar þvert á hálsinn í átt að barkanum.
Hinn maðurinn, sem oft hefur komist í kast við lögin, mætti einnig þingfestinguna og óskaði eftir fresti til að kynna sér gögn málsins. Konan var hins vegar ekki mætt þegar dómþing var sett.
Málinu var frestað til miðvikudagsins 12. mars næstkomandi þar sem sakborningum verður gert að gera grein fyrir afstöðu sinni til ákærunnar.