Almenningur var spurður um traust sitt til ýmissa stofnana samfélagsins og voru sömu stofnanir í fjórum efstu sætunum núna og í fyrra.
Sú stofnun sem almenningur ber mest traust til af þeim stofnunum sem spurt var um er Landhelgisgæslan en hátt í níu af hverjum tíu svarendum bera mikið traust til hennar. Næst kemur lögreglan sem nýtur mikils trausts 83% landsmanna og í þriðja sæti er Háskóli Íslands en 73% svarenda bera mikið traust til hans.
Þar næst kemur heilbrigðiskerfið sem nýtur mikils trausts 62% svarenda. Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins hefur lækkað talsvert á síðustu tveimur árum en fyrir tveimur árum báru 73% landsmanna mikið traust til þess. Embætti sérstaks saksóknara kemur þar á eftir en 57% bera mikið traust til þess, sem er talsvert hærra hlutfall en í fyrra þegar 48% báru mikið traust til þess.
Helmingur svarenda ber mikið traust til ríkissaksóknara og er þar sömuleiðis um aukið traust að ræða þar sem hlutfallið var 43% í fyrra. Álíka margir bera mikið traust til embættis forseta Íslands og umboðsmanns Alþingis, eða um 47%. Traust til umboðsmanns Alþingis eykst um sex prósentustig en embætti forseta Íslands lækkar hins vegar um tólf prósentustig og fer úr 5. sæti í 7.-8. sæti.
Um 43% bera mikið traust til dómskerfisins en hlutfallið var 39% í síðustu mælingu. Um 39% bera mikið traust til þjóðkirkjunnar en hlutfallið var 34% í síðustu mælingu og 28% árið þar á undan en traustið hafði verið að minnka jafnt og þétt á árunum fram að því. Um 38% bera mikið traust til ríkissáttasemjara. Um 31% ber mikið traust til borgarstjórnar Reykjavíkur en hlutfallið var 26% í fyrra og 15% árið þar á undan.
Seðlabankinn nýtur mikils trausts 28% svarenda en það hlutfall hefur verið að hækka jafnt og þétt; var 23% í fyrra og 16% árið þar á undan. Alþingi og embætti umboðsmanns skuldara mælast með mikið traust 24% svarenda. Alþingi hefur mælst með 10-15% síðustu fimm ár en þar á undan var hlutfallið talsvert hærra eða um 30-45%. Embætti umboðsmanns skuldara var mælt í fyrsta sinn nú. Fjármálaeftirlitið mælist með mikið traust 18% svarenda, sem er sama hlutfall og í fyrra, og bankakerfið nýtur mikils trausts 14% svarenda, sem er hærra hlutfall en síðustu fimm ár, en fyrir hrun þess mældist það með mikið traust fjögurra af hverjum tíu svarendum.
Spurt var: Hversu mikið eða lítið traust berð þú til ...? Röð stofnana og embætta birtist í tilviljunarkenndri röð. Þjóðarpúls Gallup mars 2014. Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 12.-23. febrúar 2014. Þátttökuhlutfall var 58,6%, úrtaksstærð 1.400 einstaklingar. Einstaklingarnir voru 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.