Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, fundar klukkan 13:00 í dag með formönnum þingflokka stjórnmálaflokkanna en fundarefnið er áframhaldandi umræða um þingsályktun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið til baka.
Formenn stjórnarandstöðuflokkanna, einkum Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar, eru ósáttir við að stjórnarmeirihlutinn skuli ekki hafa haft frumkvæði að viðræðum um framhald málsins í þessari viku. Þeir hafi átt von á því í kjölfar samkomulags þingflokksformanna í lok síðustu viku að þessi vika yrði notuð í slíkar viðræður.
Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra var lögð fram fyrir tveimur vikum. Umræður um hana hófust hins vegar ekki fyrr en á fimmtudaginn fyrir viku vegna langra umræðna á Alþingi um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknarinnar. Tillagan komst hins vegar á dagskrá eftir að samkomulag um framhaldið náðist.
Gert er ráð fyrir að umræður um þingsályktunartillöguna haldi áfram eftir helgi en engir þingfundir hafa verið í þessari viku vegna nefndadaga.