Björgunarsveitir kallaðar út

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til að aðstoða ökumenn á …
Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til að aðstoða ökumenn á Lyngdalsheiði. Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni hefur verið kölluð út á Lyngdalsheiði til að losa fasta bíla en Vegagerðin mun loka veginum yfir heiðina að því verki loknu. Mikil umferð hefur verið yfir heiðina síðan í morgun, bæði einkabílar og rútur, þrátt fyrir afleitt verður og færð og slæma veðurspá.

Björgunarsveitin Víkverji í Vík aðstoðar svo erlenda ferðamenn sem sitja fastir í bíl á afleggjaranum að Reynishverfi.

Veðurstofa Íslands hefur varað við stormi víða um land í dag og fram á nótt. Einnig er búist við mikilli úrkomu SA-land síðdegis og hvössum vindhviðum við fjöll, einkum sunnan- og vestanlands.

Slysavarnafélagið Landsbjörg minnir fólk á að vera ekki á ferðinni þar sem veður er slæmt nema brýna nauðsyn beri til og þá aðeins á vel búnum bílum. Einnig er tilefni til að árétta að ætíð skal virða lokanir vega.

Frétt mbl.is: Mosfellsheiði er ófær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert