Hellisheiði og Mosfellsheiði lokaðar

Björgunarsveit hefur verið kölluð út til aðstoðar ökumönnum. Mynd úr …
Björgunarsveit hefur verið kölluð út til aðstoðar ökumönnum. Mynd úr safni. Mynd/Landsbjörg

Heillisheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði hefur nú öllum verið lokað. Þá er einnig lokað milli Markarfljóts og Víkur í Mýrdal vegna veðurs. Þetta kemur fram á heimasíðu Vegagerðarinnar. 

Vegagerðin þjónustar ekki vegina yfir Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði í dag.  Nokkrir vegfarendur eru í vandræðum og hefur björgunarsveit verið kölluð út þeim til aðstoðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. 

Óveður er undir Eyjafjöllum og óveður og flughálka á Reynisfjalli við Vík. Í tilkynningu frá lögreglu segir að ferðamenn hafi þegar lent í vandræðum. 

Margir hafa lent í vandræðum í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli í morgun. Að sögn lögreglu hafa nokkrir bílar hafnað utan vegar og erfiðlega virðist ganga að aka milli Skóga og Víkur. Mjög hvasst er á svæðinu og mikil hálka. Ein bílvelta varð á svæðinu í morgun.

Lögregla hefur sent aðstoð til nokkurra ökumanna, meðal annars upp í Reynisfjall, og þá hafa bændur á bæjum í nágrenninu einnig aðstoðað ökumenn og dregið þá aftur upp á veg með traktorum.

Lögregla á Hvolsvelli hvetur fólk til að vera ekki á ferðinni ef það kemst hjá því.

Varað við snörpum hviðum

Veður fer ört versnandi á landinu þegar kemur fram á daginn. Varað er við snörpum hviðum 40-50 m/s í A-átt undir Eyjafjöllum og í Mýrdal frá um kl. 11 til 15. Hvassviðri og snjókoma víða um land, einkum á fjallvegum, en hlánar suðaustan- og austanlands.

Til að mynda má reikna með að mjög blint verði á Hellisheiði og Mosfellsheiði frá því um hádegi í dag og fram undir kvöld. 

Búast má við hvössum vindhviðum undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi eftir hádegi og fram á kvöld.

Færð og aðstæður

Hálka er á Hellisheiði og í Þrengslum en það er hálka, hálkublettir eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi.

Hálka er á Bröttubrekku og Þæfingsfærð er bæði á Holtavörðuheiði og á Svínadal en mokstur er hafinn.

Á Vestfjörðum er víða hálka eða hálkublettir á láglendi og sumsstaðar éljagangur og skafrenningur. Þungfært er á Þröskuldum og ófært á Steingrímsfjarðarheiði. Snjóþekja er á Hálfdán og á Mikladal. Þæfingsfærð er á Kleifaheiði og frá Vatnsfirði að Klettshálsi en ekki er búið að skoða færð á Klettshálsi.

Vegir eru nánast auðir í Húnavatnssýslum og Skagafirði. Snjóþekja er í Langadal og hálkublettir á Þverárfjalli. Snjóþekja er á Öxnadalsheiði. Á Norðurlandi eystra er sumstaðar nokkur hálka, einkum á fjallvegum og inn til landsins þótt víðast sé autt á láglendi. Snjóþekja er á Mývatsheiði.

Hálka er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og á Vopnafjarðarheiði en búast má við versnandi veðri og ófærð upp úr hádegi. Á Austurlandi er annars víða nokkur hálka á Héraði en autt að mestu niðri á fjörðum. Hálka er hins vegar frá Hvalnesi með suðausturströndinni í Vík.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn

Gengur í norðaustan 15-25 m/s fyrir hádegi fyrst syðst. Hvassast S- og SA-til, en um landið NV-vert í kvöld og nótt. Snjókoma eða slydda síðdegis en mikil rigning SA-lands og fram á kvöld. Dregur úr vindi S- og A-til í kvöld. Hægt minnkandi NV-átt á morgun og snjókoma eða él fyrir norðan, en vestlægari syðra og él, einkum SV-lands. Hiti víða kringum frostmark og vægt frost til landsins, en hlýrra um tíma síðdegis, einkum SA-og A-lands.

Í næstu viku er áfram spáð umhleypingasömu veðri og mun Vegagerðin reyna að nýta alla þá daga sem gefast til að opna leiðirnar og verða upplýsingar um stöðu mála hverju sinni birtar á heimasíðu Vegagerðarinnar og veittar í síma 1777 .

Frétt mbl.is: Fólk hvatt til að fara varlega
F
rétt mbl.is: Versnandi veður þegar líður á daginn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert