Miklar annir eru nú hjá björgunarsveitum vegna ófærðar á Lyngdalsheiði, Mosfellsheiði, Hellisheiði, Þrengslum og á Þingvöllum.
Rúta með á sjöunda tug farþega fór út af í Skógarhlíðarbrekku í Þrengslum. Verið er að sækja fólkið og munu björgunarsveitir flytja það í fjöldahjálparstöð sem Rauði krossinn er að opna í grunnskólanum í Þorlákshöfn.
Á Hellisheiði situr fjöldi bíla fastur en á þessari stundu er ekki vitað nákvæmlega um umfangið. Verið er að flytja 20 manns úr bílum sínum á Lyngdalsheiði og á Mosfellsheiði er talið að á milli 20 og 30 bílar sitji fastir. Björgunarsveitir eru einnig að sækja ferðafólk sem kemst ekki leiðar sinnar af Þingvöllum en það bíður aðstoðar í þjónustumiðstöðinni.
Þá aðstoðar Flugbjörgunarsveitin í Varmahlíð ferðafólk í ógöngum í Skiptabakka.
Ófært er frá Reykjavík um Mosfellsheiði að Þingvöllum og eru björgunarsveitir af höfuðborgarsvæðinu að aðstoða ökumenn á því svæði. Ófært er um Lyngdalsheiði og er björgunarsveit frá Laugarvatni að aðstoða þar 25 bíla og rútu.
Ófært er um Hellisheiði og eru björgunarsveitir af höfuðborgarsvæðinu og frá Árnessýslu þar að störfum. Vegfarendum er vísað á Þrengsli þurfi þeir nauðsynlega að vera á ferð. Vegagerðin er með tæki á Þrengslavegi til að halda þeirri leið opinni.
Ófært er frá Markarfljóti að Vík, þ.e. undir Eyjafjöllum, og eru björgunarsveitir þar að aðstoða ferðamenn. Ökumenn hafa lent í vandræðum á Mýrdalssandi og í Öræfum og hafa björgunarsveitir farið þar til aðstoðar.
Frétt mbl.is: Hellisheiði og Mosfellsheiði lokaðar
Frétt mbl.is: Björgunarsveitir kallaðar út
Frétt mbl.is: Fólk hvatt til að fara varlega